141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:12]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans fyrirspurn. Hún kemur inn á svið sem hefur verið talsvert rætt í þessari umræðu.

Í fyrsta lagi vil ég segja að ég er á því að stíga þurfi ákveðið skref til að freista þess að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og það er ekki hjól sem er verið að finna upp hér á Íslandi heldur sú leið sem Norðurlandaþjóðirnar hafa verið að fara. Þær eru að komast að þeirri niðurstöðu að það sé farsælasta leiðin sem í boði er.

Ég nefndi það hins vegar í ræðu minni, og ég tel bara að við eigum að viðurkenna það, að annmarkar kunni að vera á þessari leið, sérstaklega eins og ég nefndi ef efnahagslífið er að taka verulega við sér. Við sjáum að innheimtur á útvarpsgjaldinu aukast. Þær voru á síðasta ári innan við 70%. Segjum að þær fari upp í 85 eða 90%, þá hækka skyndilega þær tekjur sem renna til Ríkisútvarpsins verulega að óbreyttu. Það kann að vera sérkennilegt í ástandi þar sem ekkert hefur breyst í starfsemi Ríkisútvarpsins og fjárþörf þess til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar um almannaþjónustu eru kannski óbreyttar. Það var á þeim forsendum sem við ræddum það í meiri hluta nefndarinnar, og settum inn í okkar nefndarálit í vor, að hugsanlega þyrfti að setja þarna inn ákveðinn sveiflujafnara til að tryggja að ekki séu óeðlilegar sveiflur í tekjum til stofnunarinnar til hækkunar eða lækkunar vegna ytri aðstæðna sem tengjast ekkert rekstrinum.

Það er mitt svar. Ég tel að við verðum að reyna að tryggja að ekki sé með einfaldri ákvörðun hér á þinginu hægt að hafa óeðlileg afskipti af fjárhag stofnunarinnar, til dæmis ef meiri hlutanum líkar ekki fréttaumfjöllun Ríkisútvarpsins. Ég tel að meginreglan eigi að vera sú að virða fjárhagslegt sjálfstæði en skoða hugsanlegan sveiflujafnara í útfærslu.