141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

samkomulag ríkisstjórnarinnar við orkufyrirtæki.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mín skoðun er sú að það hefði verið æskilegra að við stæðum frammi fyrir því núna að rammaáætlun hefði þegar verið afgreidd frá þinginu þannig að hægt hefði verið að halda eðlilegum hraða á þeim framkvæmdum sem hv. þingmaður nefnir, framkvæmdum sem alltaf voru fyrirhugaðar og eru í virkjanaflokki. Samkvæmt mínum upplýsingum eru umræddar framkvæmdir hvorki óafturkræfar né á óröskuðum svæðum og í þær er ráðist í fullu samráði við sveitarfélögin á svæðinu og það skipulag sem þar gildir.

Því get ég ekki séð að við þessum framkvæmdum þurfi að amast á þessu stigi jafnvel þótt enn hafi ekki verið gefið út framkvæmdaleyfi fyrir virkjun á svæðinu. Það er líka vert að hafa í huga að hingað til hefur í starfi rammaáætlunar verið gert ráð fyrir að þarna yrði virkjað. Það er mikilvægt en það segir sig hins vegar sjálft að óafturkræfar framkvæmdir verða að bíða endanlegrar samþykktar rammaáætlunar og þess að tilskilið leyfi verði samþykkt. Ekkert í núverandi framkvæmdum stríðir gegn þessu eftir því sem ég best veit þannig að ég tel alveg óþarft að amast við þessu. Auðvitað hefði samt verið æskilegra og betra að rammaáætlun hefði verið afgreidd frá þinginu og lægi þá fyrir.