141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

samkomulag ríkisstjórnarinnar við orkufyrirtæki.

[10:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er ekkert þegjandi samkomulag á þinginu um að fyrirspurnum sé ekki svarað. Það var ekki spurt hvort þetta væri eðlileg framkvæmd, það eru flestir sammála um það. Það var spurt hvort það væri þegjandi samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna um að ekki yrði af þessum framkvæmdum.

Síðast í gær upplýsti hæstv. umhverfisráðherra þá skoðun sína að það væri æskilegt í ljósi samkomulags stjórnarflokkanna að þetta fyrirtæki biði með framkvæmdir sínar. Hvers má þá vænta í öðrum efnum? Er ætlast til þess að ríkisfyrirtæki, þótt þau séu bundin af lögum, ekki bara Landsvirkjun heldur önnur, vinni á grundvelli einhvers þegjandi samkomulags sem hæstv. forsætisráðherra vill ekki upplýsa um? Út á hvað gengur þetta þegjandi samkomulag? Er það til? Er eitthvert slíkt samkomulag milli stjórnarflokkanna? Ef svo er væri lágmark að hæstv. forsætisráðherra upplýsti Alþingi (Forseti hringir.) um það þannig að menn gætu gripið til ráðstafana. (Gripið fram í.)