141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

launamunur kynjanna.

[10:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt launamun kynjanna óþolandi og ótrúlegt að ekki hafi náðst meiri árangur í að berjast gegn honum. Því spyr ég: Hvar hefur hæstv. forsætisráðherra verið? Staðreyndin er að enginn hefur verið í betri aðstöðu til að gera eitthvað í þessu en einmitt hæstv. forsætisráðherra, þetta eru nefnilega engar nýjar fréttir.

Árið 2008 lýsti SFR áhyggjum sínum af auknum launamun. Um leið útskýrði félagið tryggilega fyrir hverjum þeim sem vildi hlusta á hverju þessi launamunur byggði, í fyrsta lagi á launamun milli svokallaðra kvennastarfa og karlastarfa þar sem konur með sambærilega ábyrgð og kröfur og karlar fengu hreinlega lægri grunnlaun og í öðru lagi launamun milli einstaklinga þar sem körlum er umbunað í formi aukagreiðslna á borð við fasta yfirvinnu umfram konur í sambærilegum störfum.

Niðurskurður ríkisstjórnarinnar á árunum 2009 og 2010 opinberar þetta vandamál þar sem opinberar stofnanir skáru fyrst og fremst niður aukagreiðslur og yfirvinnu umfram grunnlaun. Í kjölfarið minnkaði launamunur kynjanna, karlarnir misstu sporslurnar. Um leið og hægt var að réttlæta það var svo farið í að leiðrétta laun karlanna ef marka má kannanir bæði SFR og BSRB á árunum 2011 og 2012 sem sýna að launamunur hefur aftur aukist og er nú rúm 13%, jafnvel meiri í ákveðnum landshlutum.

Hæstv. velferðarráðherra sýndi eftirminnilega um daginn hvernig þetta er gert þó að hann hafi þurft að draga í land þegar fólki ofbauð. Á síðasta þingi bentu síðan konur sem gegna stöðum æðstu yfirmanna opinberra stofnana á þetta og jafnvel kjararáð virðist telja að konur geti unnið sömu störf fyrir lægri laun.

Fyrir um 30 árum kom móðir mín, þá einstæð móðir með þrjú börn, nánast orðlaus af reiði heim úr vinnunni. Ástæðan fyrir því var að í upphafi skólaársins hafði skólastjóri hennar útskýrt vinsamlega fyrir henni af hverju hún fengi ekki þá yfirvinnu (Forseti hringir.) sem hún hafði óskað eftir. Ástæðan var sú að karlkyns samkennari hennar þyrfti meira á yfirvinnutímunum að halda enda væri hann fyrirvinna fjölskyldunnar. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvað hún hyggist eiginlega gera (Forseti hringir.) í þessu á síðustu mánuðum þingsetu sinnar.