141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þingmaður tala hálfóvirðulega um það stjórnarskrárferli sem er í gangi þar sem þingið ákvað að taka málið úr farvegi þingsins og senda það til þjóðarinnar. Það kallar hv. þingmaður stjórnarskrárbrölt. Það er þjóðin sem er með málið núna hjá sér og var í raun tími til kominn vegna þess að þingið hefur verið ófært um að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá. Sett hefur verið nefnd ofan á nefnd ofan á nefnd (Gripið fram í: Það er búið að breyta því.) og þingið hefur ekki komið sér saman um ýmis grundvallaratriði sem þarf að ná fram, meðal annars af því að þingmenn eru að fjalla um sína eigin hagsmuni í stjórnarskránni. Þess vegna var alveg hárrétt að setja málið í þetta ferli.

Ég ætla ekki að vera svo svartsýn eins og hv. þingmaður og fara að tala um ef eitthvað gerist, ef þjóðin hafnar þessum tillögum og hugmyndum sem þarna eru uppi. Ég er bara bjartsýn og er vongóð um að þjóðin fjölmenni á kjörstað og veiti þeim tillögum brautargengi. Ég skal svara hv. þingmanni að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu ef svartsýnisspá hennar rætist sem ég hef enga trú á.