141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[12:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má taka undir það með þeim sem hér hafa talað að það er ánægjulegt að við séum að stíga skref til að koma til móts við fatlað fólk svoleiðis að það geti nýtt sér þann sjálfsagða rétt að taka þátt í kosningum.

Ég er ekki með spurningu heldur aðeins smáathugasemd við það sem kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Í frumvarpinu er talað um að þar sem eru fleiri en ein kjördeild taki hverfisstjórnir á móti hinum fatlaða til að ekki þurfi að stöðva kjörfundinn. Hverfisstjórnir eru lykilorð í lögunum þannig að það á því ekki að þurfa að stöðva kjörfundinn.

Hvað varðar blinda er í tilfelli komandi kosninga, þar sem spurningar verða vissulega lengri en venjulega, búið að þýða allan seðilinn yfir á blindraletur. Það munu vera 40 manns sem lesa blindraletur. Þetta heyrðum við í nefndinni. Einnig kom fram hjá fulltrúum frá Blindrafélaginu að blindir kjósa yfirleitt sjálfir, þeir kjósa með skapalóni. Út af því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kom fram með við 1. umr., um áhersluna á blinda, þá bárum við það einmitt undir þá þannig að við töldum að við þyrftum ekki að gera breytingar þar á.

Frumvarpið kemur seint fram. Það er samt sem áður fyrsta frumvarpið sem innanríkisráðherrann flutti hér í haust. Það hefur tekið tíma að vinna þetta. Ég er alveg sammála því að í þessum efnum (Forseti hringir.) má alltaf gera betur, í öllum efnum má reyndar gera betur og kannski ekki síst í þessu.