141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[12:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér er komin fram í frumvarpsformi. Við munum öll hvaða umræða spratt upp eftir síðustu kosningar varðandi aðgengi og rétt fatlaðra til að kjósa á kjörstað og þá er ég að sjálfsögðu að vísa í síðastliðnar forsetakosningar.

Það kom upp ákveðið mál þar sem fatlaður einstaklingur neitaði að þiggja aðstoð frá lögbærum aðilum við að kjósa. Þetta mál vakti töluverða athygli í fjölmiðlum eftir atburðinn. Brugðist var við á þann hátt að hér er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til að bæta úr þessu, en viðkomandi aðili vísaði í mannréttindasáttmála sem hefðu ekki verið lögteknir hér á þá vegu að sá sem ekki gæti kosið sjálfstætt mætti velja sér aðstoðarmann við kosninguna.

Ég vil segja það hér í upphafi að ég er með á þessu nefndaráliti. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er einhuga í þessu máli þannig að þetta er nokkuð sem allir þingmenn, að ég tel, koma til með að viðurkenna að þurfi að breyta. Það er ekki þar með sagt að ekki séu pínulitlar efasemdir um þetta mál því að bent hefur verið á af gestum sem hafa komið fyrir nefndina að þessi heimild í lögunum, að fatlaður einstaklingur eða einstaklingur sem ekki getur kosið af einhverjum ástæðum hafi þar sinn aðstoðarmann, feli í sér þá áhættu að hagsmunir fari ekki saman og sá sem ekki getur kosið verði fyrir þvingunum af hendi þess sem kemur með honum á kjörstað. Við skulum samt halda þeirri skoðun hér á lofti að þetta sé allt saman gert í góðri trú og verði ekki misnotað með þessum hætti. Auðvitað er líka hin hliðin á þessu, hvort fulltrúar frá kjörstjórn framfylgja vilja kjósanda varðandi hvað eigi að kjósa þannig að einstaklingurinn njóti trúnaðar hjá opinberum starfsmanni en ekki nánum ættingja eða aðstoðarmanni sínum.

Ég vildi benda á þetta, herra forseti, því að þessar spurningar komu upp varðandi þetta. Ég var einmitt með sérstaka fyrirspurn í nefndinni, sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi, hvort þetta frumvarp mundi þá leysa þau vandamál sem sjóndaprir og blindir hafa bent á í gegnum tíðina, að það væri ekki nægilega vel að kosningum staðið frá þeirra bæjardyrum séð. Þá kom í ljós að búið er að setja þennan spurningalista sem á að kjósa um nú 20. október yfir á blindraletur þannig að það er búið að leysa málið að því leyti.

Það var uppi ákveðin krafa hér á sínum tíma um að atkvæðaseðlar ættu að vera með blindraletri til að sjónskertir og blindir mundu sitja við sama borð og þeir sem eru sjáandi en þá var farin sú leið eins og hefur verið farin í gegnum tíðina að nota hið svokallaða skapalón við kosningu. Það er einfalt í framkvæmd þegar er bara verið að kjósa um listastafi en auðvitað er það sérstakt þegar að þessum kosningum kemur 20. október, en yfirvöld eru búin að sjá til þess að seðillinn verði á blindraletri eins og hér hefur komið fram. Þá liggur það fyrir.

Þetta frumvarp þarf að fara í gegnum þingið og verða að lögum fyrir kosningarnar ef þetta á að virka í þeirri skoðanakönnun sem fer fram 20. október. Ég lýsi því yfir að það er fullur vilji hjá þingflokki Framsóknarflokksins að svo verði því að þeir sem þurfa á þessari þjónustu á halda líta á hana sem mjög mikið réttindamál og að sjálfsögðu styðjum við þingflokkur framsóknarmanna öll mannréttindamál sem koma fyrir þingið og eru bráðnauðsynleg til úrlausnar til bættrar réttarstöðu fyrir einstaklinga.

Frú forseti. Ég kem til með að fylgja þessu máli eftir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og passa upp á það fyrir hönd flokksins að það fái þar hraða og góða málsmeðferð því að við leggjum áherslu á að frumvarpið geti orðið að lögum fyrir 20. október.