141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson sem hér talaði síðastur velti fyrir sér hlutverki Ríkisútvarpsins. Ég fór að sjálfsögðu talsvert ítarlega yfir þetta í umræðum í gær, en mér finnst þó rétt að árétta að ég tel að í frumvarpinu sé almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins ohf. skilgreint mun nákvæmar en gert er í gildandi lögum. Það á meðal annars stoð í þeim athugasemdum sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur gert við íslensk stjórnvöld. Hér er reynt að draga fram það sem felst í skilgreiningu ESA og farið mjög nákvæmlega yfir hana eins og hv. þingmaður hefur kynnt sér í 3. gr. frumvarpsins. Þar má segja að settar séu mjög ríkar kvaðir á Ríkisútvarpið sem fela í sér að það uppfylli lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir samfélagsins, auk menningarlegs og tungumálalegs fjölræðis. Það er skilgreiningin sem lögð er fram á almannaþjónustuhlutverki fjölmiðla og okkur finnst mikilvægt að skilgreina það svona og það hefur verið gert í þessu frumvarpi, meðal annars í samráði við sérfræðinga ESA. Ég tel að þarna séu settar kvaðir á Ríkisútvarpið til að það uppfylli þetta almannaþjónustuhlutverk. Síðan getur hv. þingmaður haft skoðun á því hvort hentugt sé að hið opinbera standi almennt að rekstri fjölmiðla. Ég tel það kannski vera aðra spurningu. Þar getum við hv. þingmaður verið ósammála. En með þessum kvöðum er verið að uppfylla þetta hlutverk.

Ég vil þakka öllum hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Ég á von á því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari vel yfir málið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hér er staddur og talaði í málinu í gær, ræddi aðeins samræmi þessa frumvarps við lög um hlutafélög. Mér finnst rétt að það komi fram að í hlutafélagalögum sem ég skoðaði í dag stendur að hlutafélögum sé einum rétt og skylt að hafa orðin hf. eða ohf. í heiti sínu, en samkvæmt þeim lögfræðingum sem ég hef ráðfært mig við í morgun felur þetta ákvæði ekki í sér að það sé skylda til að nota skammstöfunina til að mynda í lagafrumvarpi af þessu tagi. En þetta fer hv. allsherjar- og menntamálanefnd nákvæmar yfir.

Hvað varðar fyrirkomulag stjórnar og hvort það standist lög minni ég aftur á þær athugasemdir sem ég gerði í gær að við kjósum stjórn Ríkisútvarpsins á þingi og hún er síðan kosin að nýju á aðalfundi hlutafélags. Svo vek ég athygli hv. þingmanns á því að nú er komið fram frumvarp til breytinga á hlutafélagalögum. Þar eru meðal annars lagðar til breytingar á greinum um opinber hlutafélög og 80. gr. um rétt fulltrúa starfsmanna til að sækja aðalfundi í opinberum hlutafélögum.

Hér er auðvitað gengið lengra með því að veita fulltrúa starfsmanna seturétt með málfrelsis- og tillögurétt í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. en ekki fáum við séð að það stangist á við íslensk hlutafélagalög. Ég nefni líka sem viðbót að hjá norska ríkisútvarpinu, en upphaflega var ákveðin fyrirmynd sótt þangað að löggjöfinni um RÚV ohf. og við höfum aftur litið til norsku löggjafarinnar, að þar eiga starfsmenn tvo fulltrúa í stjórn sem raunar hafa atkvæðisrétt. En þetta er allt atriði sem ég tel að nefndin hafi tækifæri á að fara yfir.

Fyrst og fremst vil ég ítreka að ég tel mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga. Í því er auðvitað margt sem snýr að athugasemdum ESA. Það eru hins vegar ýmis önnur atriði lögð til og ekkert verið að fela það. Ég tel að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi ríflegan tíma til að fara yfir málið og skoða þær ábendingar sem kunna að berast um það.