141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[14:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætlunin með því að setja markáætlun lagastoð er einmitt, eins og ég sagði hérna áðan, að þarna er um verulega fjármuni að ræða og það skiptir mjög miklu að ferlið sé í lagi. Þess vegna er lagt til að skipuð sé stjórn markáætlunar þremur einstaklingum úr stjórn Rannsóknasjóðs, þremur úr stjórn Tækniþróunarsjóðs sem síðan starfi samkvæmt áherslum Vísinda- og tækniráðs og auðvitað hefur þetta verið gert þó að það hafi ekki verið bundið í lög.

Þannig má nefna að síðustu markáætlanir byggja á heilmiklu opnu samráði úti í geiranum þar sem kallað var eftir áherslum vísinda- og tæknigeirans hvað ætti að setja í öndvegi. Auðvitað hefur þessi vinna ekki farið þannig fram að hún hafi bara verið ákveðin af handahófi. Ég tel að menn hafi í raun og veru verið að setja mjög skarpar áherslur og við sjáum árangurinn. Við sjáum árangurinn til að mynda í lífvísindunum svo dæmi sé tekið, mjög góðan árangur. En ég tel hins vegar mikilvægt eigi að síður, því að þetta er stór liður, að það sé lögbundið og að áherslur komi frá Vísinda- og tækniráði sem væntanlega leggur þá línurnar um hvaða áherslur eigi að taka. Hv. þingmaður nefnir réttilega áherslur úr erlendu sérfræðinganefndinni sem ég tel að komi þar sterkar inn. En þarna finnst mér einhvern veginn rétti ferillinn vera við ákvarðanatökuna sjálfa. Þegar kemur hins vegar að úthlutun styrkja þá gilda þar auðvitað bara eðlilegar reglur um hæfi og vanhæfi, og ættu að gilda.