141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[14:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka þolinmæðina. Ég vil rétt upplýsa hvað maður gerir hérna, ég var niðri að borða smá afmælisköku. Það var afmæli hjá einni í flokknum og við vorum aðeins að fagna og njóta afraksturs íslensks landbúnaðar, ég veit að það gleður hæstv. forseta.

Ég er komin hér til að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Ég fagna frumvarpinu, ég tel það vera rétt skref. Góðir hlutir gerast hægt en þeir eru þó að gerast. Ég tel þetta vera mikilvægt skref. Það styrkir þá lagaumgjörð sem við settum á árum áður sem byggir á grundvelli vísinda- og tækniráðs og var fyrirmynda leitað víða. Ég man að á sínum tíma þegar ég og fleiri í allsherjar- og menntamálanefnd og iðnaðarnefnd fórum til Finnlands þar sem leitað var í smiðju annarra landa. Ég fagna því að vel hefur tekist til.

Ég vil líka benda á að þrátt fyrir ákveðnar efasemdir þáverandi stjórnarandstöðu er það engu að síður þannig að stjórnmálin hafa náð að sameinast um þessa þætti, að halda áfram að byggja upp vísindi og rannsóknir. Það er kannski eitt af því sem háir okkur hér inni að við tölum allt of lítið um það sem sameinar okkur. Við höfum verið dugleg að koma áfram mörgum góðum málum þó að áherslurnar geti verið mismunandi, og síðan er náttúrlega gargandi ósamkomulag í öðrum málum, eins og menn þekkja.

Ég fagna sérstaklega því að menn haldi áfram að reyna að finna rétta fyrirkomulagið, rétta sjóðafyrirkomulagið þannig að skilvirknin verði sem mest með því fjármagni sem við höfum. Fjármagnið er þó takmarkað, það verður að segjast eins og er, en verið er að reyna að finna leiðir til þess að það fari beint inn í rannsóknirnar þannig að yfirbyggingin verði minnkuð en um leið verði skilvirkt aðhald og gegnsæi. Gegnsæi kemur í gegnum samkeppni og samkeppnisreglur þar um varðandi hvaða vísindatilraunir, rannsóknir o.fl. eiga að hljóta styrki og hverjar ekki.

Ég tel rétt að fara þá leið sem hér er farin en ég gat um það í andsvari mínu áðan við hæstv. ráðherra að ég hefði viljað sjá heildstæðari stefnu varðandi vísindi og tæknimál almennt í landinu. Það hefur oft og tíðum verið barátta á milli ráðuneyta, við skulum bara segja eins og er. Það hefur verið togstreita á milli ráðuneyta um hver heldur hverju o.s.frv. og oft og tíðum hefur það verið á kostnað málefnisins sem slíks. Ég sé að það er ekki nein áherslubreyting hvað það varðar og bíð því spennt eftir því hvað kemur úr ranni hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að því að endurskoða vísinda- og tækniráð síðar í vetur.

Ég tel að það væri farsælla að sameina þessa vísindasjóði. Ég kom áðan inn á aukið virði sjávarfangs. Það er alveg hárrétt sem fram kom í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur að það er mjög merkilegur sjóður og hefur styrkt margar frábærar rannsóknir, en engu að síður eigum við ekki að gefa neinn afslátt af því hvernig úthlutunarreglum er háttað eða aðkomunni allri. Það segi ég með fullri virðingu fyrir þeim sem að þessu standa. Regluverkið af hálfu þingsins verður að vera skýrt og klárt og það þarf að vera stuðningur við málefnið sem slíkt en ekki vera til þess fallið að auka tortryggni.

Ég velti líka fyrir mér hvert hlutfall styrkja sé í grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir. Ég hefði gjarnan viljað sjá þróunina þar. Ég get líka séð þróunina í skýrslu vísinda- og tækniráðs sem verið hefur í fjárframlögum til grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna.

Það tengist því risamáli sem okkur er öllum umhugað um, það er hvernig vísinda- og rannsóknarsamfélag við viljum hafa hér og hvort við viljum ekki örugglega hafa það. Ég held að allir stjórnmálaflokkar og allir stjórnmálamenn hafi sagt já við því. Við í allsherjar- og menntamálanefnd heimsóttum Háskóla Íslands í fyrradag. Það er mikið fagnaðarefni hvernig Háskóli Íslands hefur náð að efla sig og styrkja og hefur stefnt hátt þrátt fyrir margar úrtöluraddir á sínum tíma. Menn töldu það ekki vera raunhæft og jarí, jarí, jarí, ég fékk að heyra það bæði innan og utan ríkisstjórnar, en Háskóli Íslands hefur engu að síður náð merkilegum árangri og heldur áfram að bæta sig. Það sem kemur hins vegar í ljós þegar við skoðum tölur, rannsóknir og fjármagn á árunum 2006–2010 er að færri vísindagreinar eru birtar en áður. Það er einn af þeim stóru mælikvörðum sem segir okkur hvar við stöndum í samfélagi þjóðanna, í því vísindasamfélagi sem við viljum vera fullir þátttakendur í. Það er mikið áhyggjuefni. Þó að ríkisstjórnin segi að hún hafi forgangsraðað í þágu rannsókna og vísinda sjáum við samt að verulega hefur verið skorið niður í þeim málum á árunum sem vinstri ríkisstjórnin hefur verið við völd. Hún hefur að mínu mati ekki forgangsraðað nægilega í þágu rannsókna og vísinda. Það getur vel verið að menn séu að reyna að bæta í, en fyrirgefið, það er bara ekki trúverðugt þegar kosningaárið er fram undan, það er ekki trúverðugt að koma með svona korteri fyrir kosningar.

Það sama gildir um fæðingarorlofið sem við ræddum fyrr í dag. Sama hvað menn segja þá er fylgni á milli aðgerða og stefnu ríkisstjórnarinnar, á milli ákvarðana og stefnu hennar í jafnréttismálum til dæmis hvað varðar fæðingarorlof, og aukins launamunar kynjanna. Fæðingarorlofið er eitt af þeim tækjum sem vinna áttu gegn launamun kynjanna. Ég fullyrði að það sé eitt af þeim málum sem haft hefur vond áhrif á þróunina.

Hvers vegna tek ég það fram? Jú, það sama gildir um rannsóknirnar. Þó að menn hafi haft góðan og ríkan vilja til að passa upp á ákveðna rannsóknarsjóði og þá sjóði sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og núna atvinnuvegaráðuneytið undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, hefur engu að síður dregið úr þessum framlögum á síðustu þremur, fjórum árum. Ég hefði viljað sjá forgangsraðað í þágu vísinda og rannsókna og í þágu heilbrigðismála og menntamála og látið þá önnur verkefni, sem eru að mínu mati ekki eins mikilvæg, frekar sitja á hakanum. Allt fjallar þetta um pólitískar áherslur (Gripið fram í.) og ég veit að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur svo sannarlega þurft að berjast fyrir því fjármagni sem runnið hefur í rannsóknar- og vísindasjóðinn. Ég veit að hún hefur verið dyggur talsmaður og baráttumaður þess. En ég sakna þess að skynja ekki aukinn skilning af hálfu annarra ráðherra, ekki síst þeirra ráðherra sem voru í þeirri stjórn sem sat á undan þessari. Þar var talað með öðrum hætti. Ég kalla þess vegna eftir því varðandi frumvarp sem þetta, um breytingar á lögum vegna vísinda og rannsókna, að við fáum að sjá stærri mynd en eingöngu uppstokkun á stjórnsýslu og skipulagi sjóðanna þó svo að það sé gert af góðum hug.

Við í Sjálfstæðisflokknum munum að sjálfsögðu nýta tækifærið til að fara gaumgæfilega yfir málið í allsherjar- og menntamálanefnd með það í huga að styrkja kerfið, gera það gegnsærra og markvissara í þágu vísinda og rannsókna. Við viljum gjarnan fá að sjá það hvort fylgni sé á milli fjárframlaga til vísinda og rannsókna og þess hvað við stöndum okkur vel á því sviði á alþjóðavísu. Við sjáum að ýmis verkefni fá stuðning frá útlöndum, sem er vel. Síðast í dag fengum við milljarð frá hinu alræmda Evrópusambandi til að setja í jarðskjálftarannsóknir, það fer að miklu leyti til íslenskra rannsóknar- og vísindamanna. Hér á að vera ofurrannsóknarstöð jarðskjálftarannsókna. Ég held að það sé gott og ég vona að menn fari nú ekki að fjargviðrast yfir því að stuðningurinn komi þaðan. Það er rétt að benda á að við fáum mikinn stuðning í ýmsar menntarannsóknir og vísindarannsóknir á grundvelli EES-samningsins en við fáum líka gríðarlega mikið til baka á sviði mennta, menningar, nýsköpunar og skapandi greina, eins og hv. þm Eygló Harðardóttir kom inn á í máli sínu.

Tækifærin eru mörg en það tekur mörg ár að byggja upp samfellu í vísindum og rannsóknum. Það þarf ekki að taka nema nokkrar vitlausar ákvarðanir í hasti eða í pólitísku orðaskaki eða skiptimyntarleik til að rífa niður það sem byggt hefur verið upp í vísindum og rannsóknum. Þess vegna hvet ég til þess að menn hugsi um stóru myndina, hugsi til lengri tíma í vísindum og rannsóknum og að við tökum alvarlega þær ábendingar sem við höfum fengið frá virtustu rannsóknar- og kennslustofnun okkar, Háskóla Íslands.

Það eru hlutir sem við munum fara yfir í nefndinni. Að öðru leyti vil ég vekja athygli á því sem fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem undirstrikar að mér finnst ekki vera forgangsraðað í þágu rannsókna og vísinda. Í lok umsagnar ráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum er því ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.“

Þetta sjáum við í hverju frumvarpinu á fætur öðru sem snertir vísindi, rannsóknir og háskóla.

Við munum engu að síður leggja okkur fram eins og alltaf við að fara málefnalega yfir frumvarpið, athugasemdir og þær athugasemdir sem okkur berast. Það skiptir öllu að við verðum áfram nokkuð samhent á þingi í uppbyggingu vísinda og rannsókna. Ég vona að svo verði. En þá verða menn líka að átta sig á því innan ríkisstjórnarinnar að ákveðnir ráðherrar þurfa aukinn stuðning í verkefnum sínum sem eru gríðarlega mikilvæg fyrir okkur til lengri tíma litið. Það eru ráðherrar sem bera ábyrgð á málaflokki vísinda og rannsókna, í þessu tilviki mennta- og menningarmálaráðherra. Það þarf að styðja við rannsóknir og vísindi með öflugri hætti en gert hefur verið á umliðnum árum.