141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um forvirkar rannsóknarheimildir til lögreglu. Þetta mál er endurflutt, það var líka flutt á síðasta þingi og þarsíðasta þingi. Reyndar komst það mjög langt á síðasta þingi. Það komst úr nefnd með áliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Ég ætla að tæpa aðeins á þessu máli þó að þingið hafi áður unnið með það og þar af leiðandi þarf ég ekki að fara mjög djúpt í það að þessu sinni því að það er endurflutt óbreytt. Það hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veiti lögreglunni sambærilegar heimildir og lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi (forvirkar rannsóknarheimildir).“

Þetta mál flytja eftirtaldir hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir, Róbert Marshall, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Kristján L. Möller og Sigurður Ingi Jóhannsson. Eins og hv. þingmenn heyra flytja þingmenn úr öllum flokkum nema VG og Hreyfingunni þetta mál.

Málið byggist í heild á því að lögreglan á Íslandi hefur minni heimildir til að rannsaka mál sem eru í uppsiglingu en lögregla í öðrum norrænum ríkjum og reyndar meira og minna í öðrum evrópskum ríkjum. Við erum með annað og veikara lagaumhverfi hér en lögreglan býr við annars staðar, þ.e. í löndum sem við viljum miða okkur við. Maður spyr sig af hverju. Að mínu mati eru ekki lengur nein rök sem standa til þess að við búum veikar að lögreglunni varðandi þessi mál en gert er í nágrannaríkjum okkar. Það sýnir sig að þó að við séum á eyju langt úti í hafi skolar glæpum hér á land alveg eins og í hinum ríkjunum. Hér eru sams konar glæpir og fólk og hin ríkin búa við. Af hverju í ósköpunum eigum við að búa verr að lögreglunni varðandi svigrúm til að rannsaka mál? (MT: Friðhelgi einkalífsins.)

Friðhelgi einkalífsins, er kallað hér fram í. Friðhelgi einkalífsins er virt á Norðurlöndunum og í Evrópu og hægt er að virða friðhelgi einkalífsins líka þegar búið er að samþykkja þetta mál. (Gripið fram í.) Líta ber til þess að það þarf að veita almenningi frið fyrir glæpamönnum. Það er mikilvægt að mínu mati. Í nútímasamfélagi hefur eðli og umfang skipulagðrar glæpastarfsemi breyst frá því sem áður var og starfsemi lögreglunnar þarf að sjálfsögðu að taka mið af þessari þróun. Glæpir sem rata til nágrannaríkja okkar rata einnig til Íslands. Það má nefna mörg dæmi sem okkur fannst fjarstæðukennd á sínum tíma. Ég ætla að nefna mansal sem þótti fjarstæðukennt hér á sínum tíma, en það hefur líka ratað hingað til lands. Ég vil líka nefna að þessir glæpir snúa að fíkniefnainnflutningi og auknum umsvifum skipulagðra glæpagengja og hryðjuverkaógn. Þetta allt upplifum við annaðhvort í dag eða megum búast við að reki á fjörur okkar. Til dæmis hryðjuverkaógnin, manni finnst hún einhvern veginn ekkert voðalega nálæg okkur í tíma og rúmi. Það fannst Norðmönnum heldur ekki. Hvað hafa þeir upplifað nýlega? Þeir hafa upplifað eina alvarlegustu hryðjuverkaárás sem átt hefur sér stað hin seinni ár á Norðurlöndunum, ótrúleg árás sem var því miður ekki hægt að stöðva þrátt fyrir að lögreglan þar hefði þær heimildir sem hér er verið að kalla eftir.

Hins vegar hefur tekist að hindra aðrar hryðjuverkaárásir. Ég ætla að nefna árás sem var í uppsiglingu á Jyllandsposten. Það tókst að stöðva þá árás vegna þeirra heimilda sem danska lögreglan hefur. Það er því góð reynsla í öðrum löndum af þessum heimildum og þess vegna eigum við að taka þær upp hér líka og verja almenning fyrir alvarlegum brotum.

Hvað felst í þessum heimildum? Þær veita lögreglunni heimild til að safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot sem framið hefur verið, þ.e. rannsókn fer fram áður en brot er framið og markmiðið er að koma í veg fyrir brot. Rannsóknin beinist að atferli sem er talið ógna almenningi, öryggi ríkisins og sjálfstæði þess. Lögreglan í Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og Danmörku telur að þessar heimildir hafi verið ómetanlegar í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi, jafnt innlendri sem erlendri, mansali, fíkniefnainnflutningi og hryðjuverkaógn svo að það helsta sé nefnt.

Varðandi þessi mál þá er ljóst að brýnt er að hafa varúðarsjónarmið að leiðarljósi þegar þessum heimildum er beitt. Allir eru sammála um það, sérstaklega sú sem hér stendur. Ég hef talað hart fyrir þessu máli og tala því líka hart fyrir varúðarsjónarmiðum. Það þarf að gæta allrar varúðar þegar þessum heimildum verður beitt og það þarf að vera skýrt eftirlit með beitingu heimildanna. Þetta eftirlit gæti verið í höndum eftirlitsnefndar sem Alþingi kysi eða sérstakrar deildar innan dómstóls eða hvorra tveggja. Þetta eru sjónarmið sem Ragna Árnadóttir, þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, bar fram. Hún kom með þá hugmynd að það gæti bæði verið eftirlitsnefnd á vegum Alþingis og deild innan dómstóls. Þannig yrði komið á ströngu aðhaldskerfi gagnvart beitingu heimildanna.

Hverjir kalla eftir þessum heimildum? Það er ekki bara sú sem hér stendur heldur miklu fleiri og þar ber helst að nefna lögregluna sjálfa. Í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra, skýrslurnar heita „Mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum“, hefur nokkrum sinnum, ég nefni júlí 2008, febrúar 2009 og mars 2010, verið kallað eftir þessum heimildum og sagt að það sé brýnt að þær fáist.

Ég vil líka nefna Ríkisendurskoðun sem hefur fengið aðeins á baukinn upp á síðkastið. Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði í nóvember 2007, og bar heitið „Ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna – stjórnsýsluúttekt“, segir að svigrúm yfirvalda til að stunda sérstaka eftirgrennslan sé takmarkað ef þau hafi ekki heimildir til að beita svokölluðum forvirkum rannsóknaraðferðum. Hafi yfirvöld slíkar heimildir mega þau fylgjast með og safna upplýsingum um einstaklinga jafnvel þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið brot. Erlendis eru slíkar heimildir yfirleitt bundnar við tilteknar löggæslustofnanir sem háðar eru sérstöku eftirliti.

Ég vil líka nefna að tveir fyrrverandi dómsmálaráðherrar hafa kallað eftir þessum heimildum, bæði Björn Bjarnason og Ragna Árnadóttir. Það er mjög merkilegt að lesa það sem Ragna Árnadóttir, þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, sagði í fréttaviðtali í ágúst 2010. Þá segir hún að hún hafi verið mikil efasemdarmanneskja um þessar heimildir og talið að fremur ætti að halda að sér höndum en hitt í þessu.

„En eftir að hafa fengið ákveðnar greiningar, upplýsingar og gögn, meðal annars um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, tel ég mér ekki stætt á öðru en að bregðast við.“

Hún setti í gang vinnu til að koma þessum heimildum á.

Ég nefni líka að í aðgerðaáætlun gegn mansali er bent á þessar heimildir. Svo vil ég benda á þá sem eru í forustu lögreglumála á Íslandi. Ég vil nefna hér Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, hann kallar eftir þessum heimildum, Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, kallar eftir þessum heimildum, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, kallar eftir þessum heimildum, Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, og Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna. Þetta fólk er í forustu lögreglumála á Íslandi og kallar allt eftir þessum heimildum og segir að það að við höfum ekki heimildirnar valdi því að við séum eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna sem geti torveldað samstarf við þær um þessi mál. Nýlega kom í fréttum í Morgunblaðinu, 6. október sl., að enn á ný er kallað eftir heimildunum. Þar kemur mjög skýrt fram að Ísland er veikur hlekkur í baráttu gegn gengjum og er þá verið að vísa til skipulagðra glæpahópa sem hafa verið að festa rætur hér á landi. Þeir sem til þekkja segja að við séum veiki hlekkurinn í baráttunni við þessi gengi af því að við höfum ekki rannsóknarheimildir.

Mér finnst þetta ekki vera bara lögreglumál — það er stundum svolítið þröngt skilgreint hvað lögreglumál er — heldur finnst mér þetta vera velferðarmál. Mér finnst það vera ákveðið velferðarmál að við getum varið íbúa landsins fyrir glæpum eins og hægt er. Við eigum ekki að fljóta sofandi að feigðarósi í því heldur gera eins og önnur lönd hafa gert og tryggja lögreglunni það svigrúm að hún geti með mjög miklu eftirliti beitt slíkum heimildum.

Hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson lagði fram mál af þessu tagi, að við héldum, ég held að það hafi verið á síðasta þingi, sem var látið líta út eins og verið væri að veita meiri heimildir en það kom á daginn að svo var aldeilis ekki. Eftir umsagnaferli í allsherjar- og menntamálanefnd kom í ljós að það frumvarp sem var þar á ferð var, ef eitthvað er, skref aftur á bak. Að sjálfsögðu lögðum við það til hliðar. Allsherjar- og menntamálanefnd fór hins vegar vel yfir málið og tók það úr nefndinni og meiri hlutinn skilaði nefndaráliti. Fulltrúi Hreyfingarinnar var ekki á því en mér sýnist þingmenn frá öllum hinum flokkunum vera á því, þ.e. fimm þingmenn skrifa undir nefndarálitið án fyrirvara, sem eru hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Magnús Orri Schram, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Eygló Harðardóttir. (Gripið fram í.) Aðrir þingmenn skrifa með fyrirvara en þó undir nefndarálit, þ.e. hv. þingmenn Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson og Þuríður Backman. Fulltrúi Hreyfingarinnar var ekki á þessu nefndaráliti og hefur væntanlega skilað minnihlutaáliti gegn málinu.

Meiri hluti nefndarinnar mælti sem sagt með því að þessi þingsályktunartillaga yrði samþykkt óbreytt þannig að það yrði sett í hendur hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar að undirbúa lagafrumvarp sem veitir lögreglunni þessar heimildir og frumvarpið yrði síðan tekið inn í þingið eins og vera ber og farið yfir það með hefðbundnum hætti þegar það er tilbúið. Ég held að þetta sé mjög snjöll leið og slæmt að þetta mál kom ekki til atkvæðagreiðslu í lok þings í vor, en eins og menn muna var talsvert málþóf í gangi og mörg góð mál komust ekki í gegn af þeim sökum. Að mínu mati eru auknar líkur á því að við klárum þetta mál núna af því að þingið er búið að fara vel yfir það. Það hefur ekkert skeð sem veikir málið, það hefur ýmislegt skeð sem styrkir það. Við sjáum uppgang glæpahópa á landinu, lögreglan er að eiga við þá og taka á þeim en hún kallar eftir þessum heimildum. Hún hefur ekki nægar heimildir, þarf meiri heimildir og aðgerðirnar sem farið hafa fram upp á síðkastið byggja að sjálfsögðu á núgildandi lagaumhverfi en þær duga ekki að mati lögreglunnar til framtíðar.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er brýnt að koma þessu máli sem fyrst til nefndar og leggja það svo í hendur hæstv. innanríkisráðherra sem útbýr þá frumvarp þar sem lögreglan fær þessar heimildir, en þar verður líka afar skýrt kveðið á um eftirlit. Það má alls ekki verða þannig að undir nokkrum kringumstæðum eigi að vera hægt að komast upp með það að lögreglan beiti heimildunum gegn þeim sem ekki þarf að beita þeim gegn. Menn hafa verið hræddir um grasrótarsamtök og einstaklinga og hæstv. ráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að hann telji að þessar heimildir þurfi ekki og að mikilvægast sé að virkja hinn góða anda í samfélaginu. Með fullri virðingu fyrir þessari fallegu hugmyndafræði þá er þetta barnalegt að mínu mati. Það er barnalegt að halda því fram að við getum stöðvað glæpi með góðum anda í samfélaginu, því miður, það þarf meira til. Þess vegna er lögregla í landinu og þess vegna þarf hún að hafa úrræði til að stemma stigu við glæpum.