141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis.

55. mál
[18:07]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp um persónukjör þvert á flokka sem ég styð að sjálfsögðu, er einn flutningsmanna. Ég ætla ekki að halda um þetta langa ræðu enda kannski ekki miklu við að bæta eftir ágæta ræðu 1. flutningsmanns. Ég vil minna á að í stjórnarsáttmálanum — sem ég á náttúrlega enga aðkomu að — sem er gerður á milli stjórnarflokkanna, er grein um að leggja skuli fram frumvarp um persónukjör. Það var gert, ef ég man rétt, haustið 2009 en þótti of skammt til kosninga til sveitarstjórna 2010, enda stóð heldur ekkert í stjórnarsáttmálanum um að samþykkja skyldi frumvarpið, það stóð bara að það ætti að leggja það fram. Ég vil nú eiginlega þakka 1. flutningsmanni þess fyrir að standa við þennan þátt stjórnarsáttmálans þrisvar í viðbót.