141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

hernaður NATO í Líbíu.

[13:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Mig langar að biðja hæstv. utanríkisráðherra að greina þinginu frá því hvernig hernaður ríkisstjórnarinnar og samstarfsmanna hennar í NATO gangi í Líbíu. Það var að sjálfsögðu heilmiklu sprengiefni varpað yfir landið á sínum tíma með stuðningi ríkisstjórnarinnar til að koma frá þáverandi valdhöfum, en hvernig hafa hinir nýju valdhafar reynst og uppbyggingin sem átti að fylgja í kjölfarið?

Jafnframt væri fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra gera þinginu grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar til ástandsins í Sýrlandi. Mun hæstv. ráðherra og ríkisstjórn Íslands beita sér fyrir því að NATO íhlutist um mál þar á sama hátt og í Líbíu? Ef frumkvæði að slíku kemur frá öðrum NATO-ríkjum, mun þá ríkisstjórnin bregðast við á sama hátt og í tilviki Líbíu og leggjast á sveif með öðrum ríkjum í NATO um að framkvæma loftárásir eða annars konar inngrip í Sýrlandi til að hafa áhrif á gang mála þar?