141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

framkvæmdir Landsvirkjunar í Þingeyjarsýslum.

[13:51]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hefur engin breyting orðið á því í því ráðuneyti sem fer með iðnaðarmál að við bindum miklar vonir við að fram undan sé uppbyggingarskeið í Suður-Þingeyjarsýslu á grundvelli orkunnar sem þar er og iðnaðarkosta sem áhugasamir aðilar eru að undirbúa til að nýta þá orku. Ráðuneytið er að vinna að undirbúningi þeirra mála, m.a. að því sem snýr að innviðum svæðisins, í góðu samstarfi við heimaaðila og aðra viðkomandi aðila.

Það breytir að sjálfsögðu ekki því að menn vilja huga að umhverfisþáttum einstakra liða í slíkum framkvæmdum. Ég skil það vel og geri engar athugasemdir við það að menn vilji stíga varlega til jarðar þegar í hlut á lífríki Mývatns og fá fullvissu um að þau áform sem þá eru í undirbúningi séu samrýmanleg þeim ákvæðum um vernd þess svæðis sem menn vilja að séu uppfyllt.

Þetta er okkur til áminningar um hversu bagalegt það er að rammaáætlun skuli ekki hafa hlotið hér afgreiðslu. Þar verða ýmsir að líta í eigin barm því að að hluta til er sú óvissa óheppileg, að ekki skuli liggja endanlega og skýrt fyrir hvort flokkun svæðanna verði sú sem var í tillögu ríkisstjórnarinnar eða hvort einhverjar breytingar verði þar á. Menn hafa gengið út frá því að menn horfðu til þess sem líklega yrði niðurstaðan, m.a. hver tillagan væri um flokkun svæða í sambandi við framgöngu sína í þessu millibilsástandi. Við værum laus við þessa umræðu að því leyti til ef rammaáætlun hefði fengið hér farsæla afgreiðslu í vor. Ég hef ekki séð að Landsvirkjun hafi neins staðar farið út fyrir það sem hún hefur leyfi til að gera, þ.e. hún er með leyfi frá viðkomandi sveitarfélagi fyrir því sem hún hefur aðhafst á þessu svæði. Margir upplifðu það þannig sem þarna væri í raun hafin bygging virkjunarinnar sjálfrar og það fannst mönnum ekki samrýmanlegt því sem fram að þessu hefur verið gengið út frá, (Forseti hringir.) að sú ákvörðun yrði ekki endanlega tekin fyrr en eftir afgreiðslu í stjórn og þá vonandi að rammaáætlun hefði hlotið afgreiðslu. Ég tel að óþarflega mikið hafi verið gert úr þessu máli (Forseti hringir.) og vona að það stefni í farsæla niðurstöðu í því eins og fleiru. Landsvirkjun hefur þegar boðað að hún ætli að stíga þarna varlega til jarðar.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörkin sem eru tvær mínútur í fyrri umferð og ein í þeirri síðari.)