141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

framkvæmdir Landsvirkjunar í Þingeyjarsýslum.

[13:55]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hryggir mig auðvitað mjög að hv. þingmaður skuli hafa orðið fyrir vonbrigðum með svör mín, en þá verður víst bara svo að vera. Ég er ekki á þeirri línu að það eigi að virkja fyrst og spyrja svo. Ég tel að við þurfum að reyna að laða fram samkomulag (Gripið fram í.) og sátt eins og mögulegt er í þessum efnum. Það þurfa allir að vanda sig. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður verður bara að sæta því að hann veiðir mig ekki hér í net sitt í þessu máli (Gripið fram í.) í þeim tilgangi sem hann hefur væntanlega í hyggju í þeim efnum.

Ég held að langbestu skilaboðin frá stjórnvöldum, ekki síst þessari stofnun hér, séu að klára rammaáætlun. Við þurfum að fá botn í það fyrir hverju er lýðræðislegur meiri hluti í sambandi við flokkun þessara svæða þannig að orkufyrirtækin og aðrir hafi hreina og skýra niðurstöðu til næstu ára í þeim efnum. Það mun ekki skipta neinum sköpum fyrir þessi áform svo fremi sem það dregst ekki um margar vikur héðan í frá. Þetta eru undirbúningsframkvæmdir sem í sjálfu sér eru ekki, (Forseti hringir.) held ég, afgerandi varðandi framkvæmdina sjálfa þegar ákvörðun yrði tekin um að fara í hana.