141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel fulla ástæðu til þess að hafa nokkrar efasemdir um það hvort Byggðastofnun eigi yfir höfuð að vera í útlánastarfsemi hvað sem líður samanburði í hruninu sjálfu. Við þekkjum það auðvitað að með reglubundnum hætti hefur komið til kasta þingsins að koma eftir á með fjármagn inn vegna þess að útlánatöp hafa verið mikil og umfram áætlanir og eigið fé stofnunarinnar verið undir því sem nauðsynlegt er.

Okkur greinir ekki á um það að við þurfum að setja fjármagn í byggðaþróun og í atvinnustarfsemi í byggðunum. Það er einfaldlega eitt af hinum sameiginlegu hlutverkum okkar. Þar eru aðstæður sérstakar. Þar er oft erfiðara að fá lánafyrirgreiðslu í mikilvæga atvinnusköpun, nýsköpun í atvinnulífi og aðra þess háttar hluti.

En ég hallast æ meira að því að það sé farsælla fyrir okkur til lengri tíma litið að leggja það fremur til í beinum styrkjum eða beinum eiginfjárframlögum til atvinnurekstrar í hinum dreifðu byggðum þannig að við horfumst í augu við kostnaðinn strax. Að við ákveðum hversu mikið við viljum setja til þessara verkefna og skiptum því eðlilega á milli verkefna eftir einhvers konar samkeppnissjónarmiðum frekar en að við séum að lána og lána út á vegum einhverra lánastofnana sem eru hálfpólitískar og samt ekki og mörgum árum seinna, þegar menn þurfa að horfast í augu við miklar afskriftir, þá fyrst komi til kasta framlaga héðan úr ríkissjóði og við fáum í raun og veru bakreikninga vegna byggðastarfseminnar.

Ég held að betur fari á því að við sýnum það þrek og þann pólitíska kjark sem þarf að vera því samfara að leggja þá fjármuni til þessara verkefna og ákveða hvernig eigi að velja á milli verkefna frekar en að þetta sé að koma hér í afskriftaformi og bakreikningum með nokkurra ára millibili.