141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram kom í máli hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra þegar ég átti orðaskipti við hann um þessi mál í fyrra að mjög fá mál hefðu ratað inn á borð iðnaðarráðuneytisins sem kærumál vegna afgreiðslu í Byggðastofnun. Nú segir hæstv. atvinnuvegaráðherra að það sé einhver aukning í þessum efnum, ef ég skildi hann rétt, þannig að umræðan hefur á vissan hátt verið markaðssetning fyrir kæruleiðina. Þá er eðlilegt að reyna að bregðast við því og taka áskorun hæstv. ráðherra um að við ljúkum umfjöllun um málið og komumst að einhverri niðurstöðu, hver sem hún svo sem verður. Menn hafa kannski hugsað með sér að það sem hallist á Byggðastofnun hefni menn í ráðuneyti.

Ég vil endilega að við ræðum til hlítar, ekki við þessa umræðu heldur þegar við fjöllum um málið, spurninguna sem mér finnst blasa við um stöðu Byggðastofnunar, ef frumvarpið verður að lögum. Byggðastofnun er í eðli sínu tvenns konar stofnun, hún er annars vegar lánastofnun. Lánahlutverkið er heilmikið og þar hefur mögulega reynt á þessar kæruleiðir. Að öðru leyti er hún ekki afgreiðslustofnun heldur einhvers konar fræðistofnun, hún er stofnun sem á að velta fyrir sér þróun mála í byggðamálum. Mér hefur reyndar stundum fundist að hún gæti verið virkari í þeirri umræðu, en látum það liggja á milli hluta, það stendur kannski ekki síður upp á okkur stjórnmálamennina að taka þátt í þeirri umræðu.

Ef búið er að loka fyrir það kæruferli sem lýtur að fjármálalegri umsýslu Byggðastofnunar eru ekki mörg tilefni til kæra frá Byggðastofnun til iðnaðarráðuneytisins eða vegna afgreiðslu Byggðastofnunar til iðnaðarráðuneytisins. Þess vegna finnst mér augljóst mál að stofnunin breyti með þessu nokkuð um eðli. Þá er nauðsynlegt að fara ofan í þessi mál frá stjórnsýslulegum sjónarhóli til þess að átta sig á því hver staðan er. Er stofnunin þá orðin sjálfstæð í þeim skilningi sem hún var fyrir gildistöku laganna 1999? Það eru spurningar sem ég tel að umhverfis- og samgöngunefnd verði að svara.