141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

útgáfa og meðferð rafeyris.

216. mál
[16:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þegar þjóðfélög hverfa frá útgáfu prentaðra seðla yfir í innstæður á rafrænu formi, greiðslur á rafrænu formi og svo framvegis þá er þörf margra breytinga ekki síður en þegar horfið var frá gullmynt yfir í seðla.

Hér erum við að ræða um viðbrögð við því að öll okkar viðskipti fara meira og minna fram í tölvum heima hjá okkur á öllum tímum sólarhringsins. Afgreiðslan er mjög hröð og þarf að vera skotheld út í gegn. Þess vegna tel ég að þetta sé mjög mikilvægt mál og því miður eðli máls samkvæmt líka nokkuð flókið. Ég mun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggja mig fram um að reyna að skilja það, kannski ekki alveg í hörgul en eins vel og ég get vegna þess að það er mjög mikilsvert að það sé rétt skilið og viðbrögðin verði rétt til að við komum í veg fyrir veilur í forminu.

Við treystum því þegar við framkvæmum færslu — við erum þannig séð öll orðin starfsmenn bankanna, við erum farin að sinna hlutverki gjaldkera sem einu sinni var, að greiða reikninga og taka út og millifæra og annað slíkt, og um leið og allir borgarar eru meira og minna farnir að fjalla um rafeyri þá er einmitt mjög mikilvægt að um hinn sama rafeyri gildi ákveðin og skotheld lög og eins rétt rökfræði.

Ég vil því undirstrika hvað þetta er mikilvægt mál og eðli máls samkvæmt mjög flókið.