141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[17:31]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski rétt að muna líka eftir því hverjir hafa verið áður í ríkisstjórn, hvað þeir gerðu og gerðu ekki og hvernig þeir skildu við. Ætli það sé ekki þannig, af því að Íbúðalánasjóður var nefndur á nafn, að einhver hrapallegustu mistökin liggi í því sem var gert í Íbúðalánasjóði upp úr aldamótunum, þegar búin var til stórkostleg áhætta fyrir hann með því að fara yfir í bréf sem ekki eru útdraganleg eða uppgreiðanleg sem býr til þá endurgreiðsluáhættu sem Íbúðalánasjóður svitnar núna undan?

Það að menn hafi orðið að setja peninga inn í Íbúðalánasjóð, það var ekki mikið val og það er ekki mikið val að takast á við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir og er til staðar. Eða hvað? Átti bara að setja hann á hausinn og gera eitthvað annað í staðinn? Það er ekki hægt að stilla þessum málum svona upp. Við höfum ekkert val átt gagnvart þeim óumflýjanlegu og umfangsmiklu björgunaraðgerðum sem tíminn og orkan hefur farið í undanfarin þrjú til fjögur ár varðandi skuldir heimilanna í landinu.

Hitt tek ég undir með hv. þingmanni að hlutur leigjenda í þessum efnum er mikið áhyggjuefni. Rannsóknir sýna, til dæmis greining Seðlabankans, að leigjendur hafa margir orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu og ekki síður fengið þungar byrðar í formi aukins húsnæðiskostnaðar en þeir sem eru í eigin húsnæði, meðal annars þeir leigjendur sem áttu þó að heita í niðurgreiddri leigu sem fylgir verðbólgu eða verðtryggingu. Við höfum líka verið að huga að því, þó að menn hafi sett mikla peninga inn í húsaleigubótakerfið, og þar á meðal ekki síst í gegnum sérstöku húsaleigubæturnar eða viðbótina, að breyta því og fara yfir í húsnæðisbætur til að jafna og rétta hlut leigjenda ekki síður gagnvart hinum sem fá stuðning frá ríkinu til að niðurgreiða vaxtakostnað vegna eigin húsnæðis. Það er í bígerð og tillögur liggja fyrir um það. En það er hluti af lausn málsins en rót vandans liggur í raun ekki þar heldur í hinu að okkur vantar nægjanlega djúpan og heilbrigðan leigumarkað.