141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

rekstrarhalli Landbúnaðarháskólans.

[10:58]
Horfa

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þann 1. janúar 2005 var Landbúnaðarháskóli Íslands stofnaður eftir samruna þriggja stofnana; Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Garðyrkjuskóla ríkisins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Þessar stofnanir voru áður reknar með halla en við sameiningu var þeim vanda ekki sinnt. Eins og við vitum hefur verið þrengt verulega að Landbúnaðarháskólanum líkt og öðrum stofnunum sem meðal annars veldur því að skólinn hefur varla burði til að standa undir rekstri.

Það er náttúrlega óþolandi ástand fyrir stofnun að burðast með hallarekstur og skuld við ríkissjóð ár eftir ár. Eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar er ástæðan fyrir hallanum sú að verðmat á náminu er ekki rétt og framlög ríkisins eru ekki í samræmi við umfang starfseminnar. Þannig hefur nemendum á námsbrautum fjölgað mikið undanfarin ár en fjárveitingar ekki aukist að sama skapi. Þetta skapar einnig óvissu fyrir starfsmenn sem þurfa að búa við fréttir um samruna og niðurskurð sem er að verða árlegur viðburður þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kemur út.

Nú kalla ég eftir svari eða tillögu um hvort og þá hvernig hæstv. fjármálaráðherra sér fyrir sér að taka á þessu máli. Það er nauðsynlegt að koma þessu máli í ákveðinn farveg og eyða óvissunni.