141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:42]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Atkvæðagreiðslan um tillögur stjórnlagaráðs sem fram fer á laugardaginn er einstakt tækifæri fyrir þjóðina til að hafa bein áhrif á þær tillögur að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins sem Alþingi mun taka til umfjöllunar og afgreiðslu nú í vetur. Valkosturinn er skýr og valið er okkar kjósenda. Samþykkt nýrrar stjórnarskrár er vandasamt verkefni. Við Íslendingar höfum farið einstaka leið samráðs og samvinnu við að móta tillögur og drög að þeirri nýju stjórnarskrá sem þjóðin hefur beðið eftir svo áratugum skiptir.

Vinnuferlið hefur vakið óskipta athygli víða um heim enda erum við fyrirmynd annarra þjóða í því að færa umræðu og ákvörðunarvald út til almennings en loka það ekki af hjá útvöldum hópi sjálfskipaðra sérfræðinga eða kjörnum fulltrúum. Tillögur stjórnlagaráðs eru sprottnar upp úr farvegi víðtækrar umræðu, samtala og vel heppnaðs þjóðfundar. Þær endurspegla þær óskir og væntingar sem komið hafa fram með skýrum hætti um nýtt og lýðræðislegt samfélag með hagsmuni og framtíðarsýn þjóðarinnar að leiðarljósi.

Meginstefið er aukið lýðræði og gegnsæi í allri stjórnsýslu landsins, skýr réttur almennings til aðkomu og ákvarðanatöku í öllum veigamiklum málum, aukið jafnræði allra landsmanna og ný og afdráttarlaus ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign bæði til lands og sjávar.

Ekkert mannanna verk er svo fullkomið að ekki megi gera á því betrumbætur. Einmitt þess vegna er mikilvægt að þjóðin segi álit sitt á þeim tillögum sem liggja fyrir. Þetta er einstakt ferli og þetta er einstakt tækifæri heillar þjóðar til að hafa slíkt mótandi áhrif á fullnaðargerð nýs þjóðarsáttmála. Það mun aldrei verða svo að hver og einn íbúi þessa lands skrifi sína eigin stjórnarskrá. Við erum sem þjóð að skrifa þennan mikilvæga sáttmála saman. Endanleg niðurstaða byggir á sátt og samkomulagi á sama hátt og stjórnlagaráð hafði að leiðarljósi í störfum sínum. Nú er það þjóðin sem mun á laugardaginn leggja sitt af mörkum til að skýra línur enn frekar í þessu víðtæka samstarfsverkefni okkar allra. Það er í fullu samræmi við skýrar óskir þjóðarinnar um samráð og samvinnu og undir þær óskir hefur stór meiri hluti Alþingis tekið. Mat þjóðarinnar á fram komnum tillögum liggi fyrir áður en umræða og afgreiðsla fari fram hér í þessum þingsal.

Í umræðunni í síðustu viku hefur komið fram í máli sumra þeirra sem lýsa sig andvíga framkomnum tillögum að það nægi að vera ósáttur eða andvígur einu atriði í tillögum stjórnlagaráðs og þá sé ekki hægt að samþykkja það sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Hér er um mikla einföldun að ræða. Við kjósendur allir hljótum, í mati okkar á tillögunum, að bera þær saman við gildandi stjórnarskrá. Það er hinn eini raunhæfi samanburður og mælikvarði. Það verður að horfa á heildarmyndina og bera saman þá valkosti sem eru til staðar. Öll umræða á öðrum nótum er ekki til annars fallin en drepa málum á dreif og koma í veg fyrir að raunverulegar efnislegar breytingar verði gerðar á stjórnarskrá landsins.

Þjóðin er fullfær um að taka ábyrga, framsýna og skynsamlega ákvörðun í þessu mikilvæga máli og þjóðin þarf hvorki á að halda pólitískri leiðsögn héðan úr þingsal né flokkslegum fyrirskipunum.

Fjölmörg ákvæði í gildandi stjórnarskrá eru bæði ófullnægjandi og óskýr. Margar greinar eru í beinni mótsögn hver við aðra og fjölmörg ákvæði sem ættu að vera í nútímastjórnarskrá fyrirfinnast ekki. Á þeim vanköntum er tekið í tillögum að nýrri stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Við höfum um margt lifað einstaka tíma í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Margt fór úrskeiðis en það hefur jafnframt gefið okkur tækifæri til að endurmeta stöðu okkar og endurskipuleggja þjóðfélag okkar. Nú gefst okkur einstakt tækifæri til að laga og endurbæta það sem beðið hefur úrlausnar áratugum saman. Valkosturinn er skýr. Horfum til framtíðar og framfara þegar við mætum í kjörklefann á laugardaginn.