141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:58]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Wikipedia skilgreinir stjórnarskrá svo, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá er heiti yfir allar þær reglur sem ráða stjórnskipun ríkis. Stjórnarskrá getur verið í formi eins ákveðins skjals eða hún getur verið dreifð í mörgum rituðum textum. Hún getur einnig verið óskrifuð að miklu eða öllu leyti, til dæmis geta hefðir og venjur haft stjórnskipulegt gildi og þannig verið hluti af stjórnarskránni.“

Í mínum huga er stjórnarskrá sáttmáli þjóðar byggður á lagalegum og hugmyndafræðilegum grunni. Í stjórnarskrá þurfa að koma fram þau gildi sem við viljum byggja samfélag okkar á svo og þær reglur sem við viljum að myndi ramma utan um samfélag okkar og stjórnskipun. Í mínum huga eru þessi atriði jafnmikilvæg, gildin og lagaramminn. Ofuráhersla á lagalegt gildi stjórnarskrárinnar er að mínu mati takmarkandi í sáttmála sem þjóðin á að upplifa sem sinn.

Það segir mikið um tillögu að nýrri stjórnarskrá hversu framarlega í henni kaflinn um mannréttindi er og hversu ítarlegur hann er miðað við samsvarandi kafla í núverandi stjórnarskrá þrátt fyrir endurskoðun þess kafla 1995. 6.–36. gr. í drögunum, alls 31 grein, fjalla um mannréttindi miðað við 62.–79. gr., alls 18 greinar, í núverandi stjórnarskrá. Áhersla er lögð á þriðju kynslóðar mannréttindi í tillögunni, þau sem oft eru nefnd samstöðuréttindi. Dæmi um slíkt er réttur til friðar og óspillts umhverfis og er talsverð ábyrgð lögð á einstaklinginn. Til samanburðar ná fyrstu kynslóðar mannréttindi yfir hin svokölluðu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi og annarrar kynslóðar mannréttindi yfir félagsleg réttindi.

Mig langar að gera 8. gr. að sérstöku umtalsefni. Hún er nýmæli og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“

Hér er virðingin fyrir fjölbreytileikanum orðuð skýrt. Slíkt ákvæði í stjórnarskrá ætti að móta viðhorf og breyta hugsanagangi. Það er hlutverk samfélagsins að fræða og ryðja burtu hindrunum þannig að fordómar gegn þeim sem vegna fötlunar, kyns, kynhneigðar eða annars sem gerir hópa fólks öðruvísi en það sem við köllum venjulega normalt, hverfi. Áherslan er á styrkleika og getu, ekki á veikleika og vangetu, á mannréttindi en ekki ölmusu.

Aðfaraorð tillögu stjórnlagaráðs ítreka gildi þessarar greinar, en þau hljóða svo, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt þjóðfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman eigum við og berum ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi, náttúru, sögu, tungu og menningu. Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti og lýðræði að hornsteinum. Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis. Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni. Með þessa hugsjón að leiðarljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Við stöndum á merkilegum tímamótum í lýðræðisumbótum á Íslandi. Nú liggur fyrir tillaga að nýrri stjórnarskrá, sannkölluðum mannréttindasáttmála sem saminn er í lýðræðislegu ferli. Þjóðin fær tækifæri nú á laugardaginn til að vega og meta og segja skoðun sína á tillögunni.

Hið lögbundna ferli stjórnarskrárbreytinga tekur síðan við í þinginu að þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni. Vonandi berum við gæfu til að hafa þá umræðu uppbyggilega. Þjóðin á skilið að það sé mannleg reisn yfir umræðu um stjórnskipan landsins og þær áherslur sem við viljum leggja rækt við í íslensku samfélagi í nútíð og framtíð.