141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

skattur á ferðaþjónustu.

[15:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki mikið á þessu að græða. Þetta er í fullu samræmi við önnur svör sem atvinnulífið fær, loðin og óljós. Við erum búin að setja saman nefnd. — Er þetta ekki kunnuglegt? Við erum að fara yfir málið. (Gripið fram í.) Við vonumst til þess að þetta muni skila einhverjum árangri fljótlega. — Eru þetta ekki kunnugleg viðbrögð hjá hæstv. ríkisstjórn þegar spurt er um málefni atvinnulífsins? Það hefur verið mikill uppgangur sem er meðal annars ríkisstjórninni að þakka. Farið hefur verið í átak, miklu til kostað. En hver er þá hugmyndafræðin á bak við það að rífa það aftur niður? Hefði ekki verið einfaldara að draga bara úr ríkisframlögum til greinarinnar en að fara í þennan óskapnað sem setur allt í uppnám og mikla óvissu?

Ég vona bara að hæstv. ráðherra geti komið hér upp og sagt, ef hún hefur trú á því (Forseti hringir.) að árangur náist í þeirri vinnu sem hún boðar að komi niðurstaða úr á næstu dögum, að greinin muni ekki búa við þessa óvissu lengur og hæstv. ráðherra ætli sér að leysa þessi mál með öðrum hætti (Forseti hringir.) en kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að virða þann ræðutíma sem þeim er úthlutað.)