141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

eignir útlendinga í íslenskum krónum.

[15:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun kom fram hjá fulltrúum Seðlabankans að eign útlendinga í íslenskum krónum er afar mikil. Það er talið að aflandskrónurnar séu um 400 milljarðar og síðan geta komið fram tæplega 400 milljarðar hjá slitastjórnunum. Það er þó reyndar háð því hvort bankarnir verði seldir fyrir erlendan gjaldeyri eða innlendan. Síðan eru skuldabréf Landsbankans með tæpa 300 milljarða. Samtals eru þetta 900–1.100 milljarðar sem útlendingar eiga hérna í krónum og vilja gjarnan fá skipt yfir í erlendan gjaldeyri.

Heildarútflutningur þjóðarbúsins nemur um 700 milljörðum. Til þess þarf að flytja inn vörur, ál, boxít og annað slíkt þannig að nettó eru það kannski 400–500 milljarðar sem þjóðarbúið getur framleitt af gjaldeyri. Þessi krónueign nemur því meira en tveggja ára útflutningi Íslendinga. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað telur hann að íslenskt efnahagslíf geti framleitt mikinn gjaldeyri? Að teknu tilliti til þess að við þurfum jú eitthvað til að lifa á, við flytjum inn matvæli, við flytjum inn bíla og olíu og annað slíkt. Þar sem hér er um að ræða sameiginlega hagsmuni Íslands og kröfuhafa er spurningin hvort landið geti framleitt gjaldeyri til að borga þeim. Hafa menn átt einhverja fundi með þeim til að leysa málið þannig að báðir aðilar geti vel við unað og Íslendingar geti framleitt gjaldeyri?

Mér finnst það varða allt að því þjóðaröryggi að vel sé að málum staðið. Núna standa til dæmis fyrir dyrum hugsanlegir nauðasamningar sem seðlabankastjóri, skildist mér á fundinum í morgun, getur einn stöðvað. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort henni sé kunnugt um að seðlabankastjóri geti einn gert það, og hvað hæstv. ráðherra hyggst gera til að hleypa út þeim gjaldeyri sem er í þrotabúum.