141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

eyðing lúpínu í Þórsmörk.

178. mál
[17:34]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Kr. Árnasyni fyrir þátttöku hans í umræðunni og væri gott að við hefðum mun lengri tíma til að ræða þessi mikilvægu mál.

Það eru nokkrar aðferðir sem beitt er til að stemma stigu við útbreiðslu lúpínu þar sem hún á ekki við. Ein af þeim er beiting á illgresiseyði. Ég tek undir þau sjónarmið að þar verður að fara afar varlega. Hins vegar treysti ég Landgræðslu ríkisins til að meta það. Þar er gríðarlega mikil sérfræðiþekking innan búðar þannig að ég tek ekki undir það orðalag hv. þingmanns að tala um að þar sé farið fram án þess að spyrja nokkurn mann. Ég held að Landgræðslan fari mjög varlega fram og ég ber mikið traust til þeirrar stofnunar, en eitur er aldrei notað nema í algeru lágmarki. Þarna var lítil tilraun gerð, hún mistókst þannig að henni verður ekki haldið áfram með þeim hætti.

Önnur leið er að slá, eins og hv. þingmaður nefndi. Svo hefur verið reynt að beita á lúpínuna. Það hefur verið reynt sums staðar með ágætum árangri. Svo er það sú leið sem hér hefur verið rædd sem er að styrkja samkeppnisgróður og freista þess að lúpínan hörfi þar sem hún á ekki heima.

Virðulegi forseti. Ég vona að við séum að minnsta kosti búin að tæma þennan þátt umræðunnar. En það er alveg ljóst að þetta er viðvarandi umræða um flóru Íslands yfirleitt, um líffræðilega fjölbreytni o.s.frv. og um ýmis álitamál sem hv. þm. Jón Kr. Arnarson drap aðeins á í athugasemd sinni varðandi samspil náttúruverndar, landgræðslu og skógræktar, sem mundi gera ráð fyrir miklu lengri tíma.