141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[17:01]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma í þessa umræðu og reifa sín sjónarmið. Hv. þingmaður nefnir æðioft forvera minn á stóli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Jón Bjarnason, og ég vil bara endurtaka að það er ekki við hann að sakast hvernig lögin voru úr garði gerð. Ef við skoðum meginárekstrana sem umboðsmaður Alþingis dregur fram í sínu áliti og aðgreinum lögin og síðan þá ákvörðun á sínum tíma 2009 að fara úr magntollum í verðtolla, snýr meginniðurstaða bæði umboðsmanns og héraðsdóms að því að lögin voru gölluð. Þær heimildir sem ráðherra voru veittar og hafa verið til staðar frá því á 10. áratugnum og snúa bæði að ákvæðum tollalaga og laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, voru ekki í samræmi við kröfur um skattlagningarheimildir sem leiða af ákvæðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er ekki við forvera minn að sakast, hvað sem menn vilja segja um framkvæmd hans að sínu leyti.

Ég tel reyndar að meginvandamálið hafi ekki legið í spurningunni um magntolla eða verðtolla, því það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að visst val sé í þeim efnum, heldur að ákvæðin eru ekki skýr. Svo er það spurningin hverjir tollarnir verða. Þar skiptir auðvitað máli hvort nægjanlega málefnaleg sjónarmið liggi á bak við.

Í öðru lagi varðandi framkvæmdina endurtek ég að við munum standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Tollkvótar verða boðnir út í samræmi við lágmarksmarkaðsaðgang og tollkvótar til frekari innflutnings ef ástæða er til að ætla að ekki verði nægjanlegt framboð á innlendum markaði. En þetta frumvarp boðar ekki grundvallarbreytingar á því að tryggja innlendri framleiðslu þá vernd sem við höfum heimildir til að gera (Forseti hringir.) í samræmi við alþjóðlega samninga og eru stór hluti af landbúnaðarstefnu okkar. Þetta er ekki stefnubreyting í þeim efnum.