141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[17:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar. Um leið vil ég segja að mér finnst miður að menn miði alltaf við lágmarkið, miði bara við lægsta samnefnara í þessum málum. Það hefur ekkert breyst frá árinu 1995 þrátt fyrir að neyslumynstur okkar Íslendinga hafi gjörbreyst. Ekkert tillit er tekið til þess, fyrir utan að okkur hefur fjölgað verulega frá árinu 1995. Í ráðuneytinu, eins og hæstv. ráðherra gat um, er engin stefnubreyting. Ég held að það væri ágætt að fá viðbrögð samfylkingarmanna á þingi við því að það eigi engin stefnubreyting að verða í þessum efnum. Mér kemur það svo sem ekki á óvart að heyra það frá hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Ég virði skoðun hans í þessum efnum.

Ég vek fólk til umhugsunar um að við erum í raun ekki að breyta neinu. Við erum ekki að opna á meiri innflutning eða treysta neytendum betur. Pottlokinu er enn haldið á innflutningi á landbúnaðarafurðum, við uppfyllum aðeins lágmarksskuldbindingar okkar samkvæmt alþjóðlegum viðskiptasamningum.

Það er vissulega ekkert við forvera hæstv. ráðherra í embætti að sakast, hv. þm. Jón Bjarnason. En af hverju var tekin sú ákvörðun að breyta úr magntollum yfir í verðtolla á sínum tíma? Af hverju var farið í þann leiðangur? Menn vöruðu beinlínis við að það mundi takmarka framboðið og fjölbreytnina á markaði. Það voru margir sem vöruðu við því. Auðvitað spyr maður sig að því í ljósi þeirrar hugmyndafræði og þeirrar stefnu sem hv. þingmaður hefur staðið fyrir og líka Vinstri grænir. Var ætlunin meðal annars að takmarka fjölbreytnina? Af hverju í ósköpunum var þessu breytt fyrst fyrirkomulagið var annars þokkalegt innan þess ramma sem unnið var eftir? Mér fannst þetta frekar bera vott um sérstakt hugmyndaflug í því að þrengja innflutning á landbúnaðarafurðum frekar en verulega stefnubreytingu.