141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[17:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, en ég tel nauðsynlegt að ég komi rétt aðeins inn í hana.

Það frumvarp sem við ræðum hér um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum tengist búvörusamningum og landbúnaðarstefnunni yfirleitt. Ég hef löngum sagt að ég er á móti og hef ætíð verið á móti öllum búvörusamningum af því að ég tel að þeir skaði bændur, þeir skaði neytendur og þeir skaði skattgreiðendur. Landbúnaðarstefnan í heild sinni skaðar alla þessa aðila. Bændur geta ekki þróað vörur sínar og starfsemi eins og þeir vilja. Ýmsar uppreisnir sem hafa orðið innan kerfisins eins og til dæmis Mjólka og fleiri sýna að bændur geta gert miklu meira. Miklu meira. Ég hef það mikla trú á íslenskum bændum að ef þeir væru ekki niðurnjörvaðir í einhverju sovétkerfi gætu þeir virkilega blómstrað.

Ég þarf ekki að nefna hvað skattgreiðendur borga fyrir þetta í gegnum beingreiðslur og sitthvað fleira. Svo líða neytendur að sjálfsögðu fyrir þetta vegna þess að þeir fá ekki bestu vörurnar sem bændur gætu framleitt á Íslandi í samkeppni við útlendinga.

Ég ætla að byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir það, eins og hann segir með réttu, að ætla að fara að þeim lögum og reglum sem eru í gildi. Það finnst mér verulega jákvætt. Ég ætla ekkert að skafa utan af því. Ég þekki hugmyndafræði hans og virði hana þótt ég sé engan veginn sammála henni, en hann er þó að minnsta kosti að laga það þar sem forveri hans fór út af strikinu að mínu mati og margra fleiri, það liggur reyndar fyrir álit umboðsmanns um það. Hér er þó verið að flytja inn eins og gert var samkomulag um, þetta er boðið út.

Ég man eftir því að við hæstv. ráðherra sátum báðir saman í hv. efnahags- og skattanefnd, ég held að hún hafi heitið það þá. Þá var verið að ræða um hvað ætti að gera við þennan innflutning og spurningin var: Áttu innflytjendur að græða á því að fá kvótann bara sisvona og geta selt vörurnar háu verði af því það var svo mikil eftirspurn eftir þeim, eða hver átti eiginlega að græða á því að þetta yrði flutt inn? Þá var það sem mér og fleirum datt í hug og nefndin samþykkti það að bjóða þetta bara upp og ríkið mundi græða á því. Þannig hefur það verið og það er ágætt. Ég held að þessi takmarkaði innflutningur hafi veitt landbúnaðinum þá samkeppni sem gerir að verkum að bændur eru þó í vöruþróun og öðru slíku og hafa náð frábærum árangri. Ég held nefnilega að eftir því sem kerfið yrði frjálsara, það er mín heimssýn og trú, mundi vöruþróun og samkeppnisstaða íslenskra bænda batna.

Ég er alfarið á móti landbúnaðarkerfinu eins og það hefur verið. Það er kerfi hafta og þrenginga. Því miður er hæstv. ráðherra líka yfir sjávarútveginum þar sem ríkir enn þá meira kerfi hafta og þrenginga, en þar er náttúrlega auðlindin svo óskaplega rík. Auðlind þjóðarinnar er svo rík að sjávarútvegurinn skilar hagnaði þrátt fyrir öll þau höft og boð og bönn sem hann verður að búa við.