141. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2012.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

228. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í rökræðunni ræðir maður ýmis sjónarmið. Ég sagðist koma með tvenn sjónarmið sem ég hef heyrt, það voru ekki mín sjónarmið heldur sjónarmið frá öðrum um að íslenskur markaður væri lítill. Ég veit líka að lögmál hinna stóru talna í líkindafræðinni gildir fyrir fyrirtæki eins og annars staðar, að sveiflurnar stefna á meðaltalið eftir því sem stærðin vex og að lítil fyrirtæki búa við mikla áhættu. Það er löngu, löngu þekkt. Ég vissi af því líka. Menn þurfa bara að átta sig á því að áhættan er miklu meiri hérna fyrir sparifjáreigendur í þessu samkrulli en í stóru löndunum þar sem þetta jafnast út.