141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:24]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Herra forseti. Það er ýmislegt í gangi hér inni sem liggur kannski ekki alveg í augum uppi. Til dæmis er uppi ákveðinn misskilningur um meint svik ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Einn þingmaður kom í pontu áðan og brigslaði ríkisstjórninni beinlínis um svik. Ég vil að það komi skýrt fram að að minnsta kosti hvað mig varðar hefur ríkisstjórnin ekki svikið nokkurn skapaðan hlut. Af hverju? Af því að ríkisstjórnin hefur aldrei lofað með einu eða neinu.

Hitt er annað mál að með atfylgi hv. þm. Þórs Saaris og með mínu atkvæði tókst að lögfesta, koma inn í stjórnarráðslögin þeirri klausu að hljóðrita skyldi fundi ríkisstjórnar Íslands og hljóðritanir síðan geymdar, varðveittar í felum í heilan mannsaldur.

Það lék enginn vafi á því frá fyrstu byrjun að þetta ákvæði vakti mjög litla hrifningu hinna eldri og reyndari stjórnmálamanna, sérstaklega þeirra sem gegna ráðherraembættum og sömuleiðis í þeim fjölmenna hópi stjórnmálamanna hér inni sem vonast til að fá með tíð og tíma að gegna ráðherraembætti. Auðvitað var fyrirsjáanlegt að úr því að mótstaðan var svona mikil strax í upphafi að öllum tiltækum ráðum yrði beitt til að fella klausuna úr gildi. Fyrsti leikurinn í því sambandi var að fá ákvæðinu frestað. Á hvaða forsendum? Jú, að það væri ekki til hljóðritunarbúnaður í forsætisráðuneytinu og það tæki einhvern voða tíma að koma honum upp.

Ég er nú staddur í ræðustól Alþingis með áhald sem ég á ekki að vera með, sem er gamall GSM-sími, en hann mundi samt duga til að taka upp alla fundi ríkisstjórnarinnar og væri velkomið að lána ríkisstjórninni hann [Hlátur í þingsal.] eða bara gefa henni hann svo hún gæti sér að kostnaðarlaus hafið þessar hljóðritanir 1. nóvember eins og núgildandi lög kveða á um.

Það sem hefur gerst hérna eru ekki svik heldur hefur það gerst að viðvaningur í pólitík eins og ég er tekinn á pólitískum ippon af reyndum stjórnmálamönnum. Það er ekkert flóknara en það. Er ég tapsár? Nei, ég hef séð svo mörg miklu ljótari brögð en það bragð sem ég var tekinn á og þeir félagar mínir á þinginu sem styðja þetta ákvæði um hljóðritanir. Ég hef séð margt miklu ljótara en þetta. En þessi pólitíski hráskinnaleikur er ein ástæða þess að mér er mjög hugleikið að ábendingar sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar um opnari stjórnsýslu nái fram að ganga.

Ef við lítum á íslenskt þjóðfélag í dag er hin opinbera stjórnsýsla sem betur fer ekki trúnaðarmál. Það er varla til sú sveitarstjórn í landinu að fundir hennar séu ekki hljóðritaðir og jafnvel útvarpað samtímis. En þegar kemur að framkvæmdarvaldinu, æðstu stjórn ríkisins, er allt í einu eins og Ísland sé orðið einkafyrirtæki. Því er stjórnað eins og einkafyrirtæki. Réttur almennings til upplýsinga, til gegnsæis, til varðveislu heimilda er einskis metinn gagnvart þeim rétti sem hinir eldri og reyndari stjórnmálamenn telja sig eiga til að starfa með fullkominni leynd.

Hér í ræðustól var áðan sagt að þessar hljóðritanir væru tóm vitleysa vegna þess að þá mundi öll ákvarðanataka færast út af fundum ríkisstjórnarinnar. Mér er nákvæmlega sama um það hvar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar eru teknar. Mér er nákvæmlega sama hvað ráðherrar segja í viðtölum, í spjalli sín á milli. Mér er sama hvað þeir segja í símann og það hvarflar ekki að mér að hafa áhuga á einkalífi þeirra. Það eina sem þessar hljóðritanir áttu að ná fram var að taka upp hvert einasta orð sem sagt er á ríkisstjórnarfundum.

Við skulum ekki gleyma því að ríkisstjórn Íslands er æðsta stjórnvald í þessu landi. Hún þiggur vald sitt frá almenningi í landinu, frá kjósendum í landinu, en bíðum nú aðeins við. Hvernig þiggur hún vald sitt frá kjósendum? Það gerir hún með okkar tilstilli. Það er enginn ráðherra sem hefur verið kosinn í embætti af almenningi. Ráðherrar eru samþykktir í embætti af löggjafarsamkundunni, þeir eru samþykktir í embætti af þeim sem hér sitja og ætla nú að blessa og bía ofan á leyndina, ofan á heimild ráðherra, framkvæmdarvaldsins, til að gefa einungis þær upplýsingar um störf sín sem þykja henta, sem þykja hæfa, sem þykja passlegar fyrir fólkið í landinu. Engar aðrar upplýsingar.

Það koma fréttatilkynningar, það eru gefin viðtöl og stundum eru jafnvel haldnar fundargerðir hjá ríkisstjórninni. Það eru engar reglur til um að halda fundargerðir. Núna stendur til að hafa fundargerðir í staðinn fyrir þessa klausu okkar um hljóðritanir sem hefur valdið svo miklum andvökum hjá æðstu stjórnmálamönnum þessa lands að núna þarf að afnema hana. Það er fullkomlega fráleitt að ímynda sér að þær fundargerðir sem núna er stungið upp á að verði haldnar hafi heimildargildi til jafns við eða í líkingu við hljóðritaða upptöku.

Hljóðrituð upptaka inniheldur allt sem fram fer á fundinum. Fundargerð inniheldur það sem sá sem ræður yfir fundargerðinni og fundarritaranum vill að standi í fundargerðinni. Þetta vitum við öll. Ég spyr — en ég mun auðvitað ekki fá neitt svar — en mig langar að spyrja þingheim, mig langar til að hver og einn þingmaður spyrji sjálfan sig: Hverju er ég bættari, hverju er fólkið í landinu bættara með því að ríkisstjórn Íslands fái hér eftir sem hingað til að starfa eins og stjórn í einkafyrirtæki sem hefur ekki upplýsingaskyldu gagnvart einum eða neinum? Af hverju vill fólk gjarnan styðja það?

Ég skil vel að á kosningavetri þegar kominn er vorhugur í marga hér sem ætla að halda áfram í pólitík sé ekki beinlínis ráðlegt eða skynsamlegt skref á meintri framabraut að setja sig upp á móti vilja þeirra sem ráða ferðinni í flokk viðkomandi. Það er miklu betra að makka með og vera ekki til vandræða. Ég hef djúpan skilning á þessu. Hugsanlega skiptir þetta ákvæði um hljóðritun ríkisstjórnarfunda og varðveislu þeirra hljóðritana í heilan mannsaldur ekki meginmáli. Þjóðin er litlu bættari með þetta ákvæði, það skal ég viðurkenna. Þetta er ekki stórt eða merkilegt ákvæði, en í mínum huga er þetta pínulítil glufa, þetta er pínulítil opnun á vörslu heimilda, á að leyndarhyggjunni verði einhvern tíma aflétt, að þeim leyndarhjúpi sem ríkisstjórnir einhverra hluta vegna vilja hjúpa sig verði lagður til hliðar. Þetta eru kannski draumórar. Að minnsta kosti vaknar maður frá þeim ljúfa draumi að hvað varðar leyndarhyggju, heimildavarðveislu, upplýsingar til almennings og önnur atriði sem rætt var um í aðdraganda búsáhaldabyltingar, sem rætt var um í þeim skýrslum sem ég hef þegar nefnt á nafn, í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannaskýrslunni, lítur út fyrir að öll sú umræða komi fyrir ekki.

Meira að segja þeir sem hér hafa talað áður frá Framsóknarflokki og hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins virðast styðja það eða ekki ætla að skipta sér af því þótt þessi hljóðritunarklausa verði brytjuð í spað og fleygt fyrir róða. Áhuginn á að afnema leyndarhjúpinn, að auka gagnsæi á þeim bæjum er ekki meiri en svo. Hins vegar er endalaus áhugi á þeim bæjum til að djöflast í ríkisstjórninni, til að brigsla henni um svik og ómerkilegheit, en að auka gagnsæið á sér afskaplega fáa formælendur í þingsal.

Einhvern tíma sagði íslenskur stjórnmálamaður þessi frægu orð þegar ekki gekk allt í haginn: Minn tími mun koma. Vissulega hefur sá tími komið. Á þeim tíma hefur margt glæsilegt verið gert en þeim tíma fylgja líka skuggar. Leyndarhyggjan og áhuginn á varðveislu leyndarhyggjunnar mun að mínu viti verða stærsti skugginn sem í framtíðinni mun tengjast ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra. Það var auðvitað hennar verkefni að fara að þeim ráðum sem fram komu í þeim skýrslum sem ég hef þegar nefnt á nafn. Það hefur verið gert að sumu leyti en allt sem viðkemur leyndarhyggju og störfum framkvæmdarvaldsins hefur verið sópað út af borðinu, undir teppið og nú er verið að afgreiða það afskaplega lipurlega með því að stinga upp á því að við setjum reglur um að ríkisstjórnin fari að halda fundargerðir eins og ríkisstjórnir hafa reyndar gert án nokkurra lagalegra fyrirmæla, bara til að skilja eftir sig eitthvað sem þær vilja sjálfar að sé varðveitt.

Þetta er kannski ekkert skemmtilegt. Það er ekkert skemmtilegt að vera tekinn á pólitískum ippon. Það er ekkert skemmtilegt þegar félagar manns í þingsal, sem maður hélt að dýrkuðu ljósið, gegnsæið og sannleikann, eru á því að við skulum bara halda áfram að synda í gruggugu vatni. Það er ekki skemmtilegt, finnst mér, að horfa upp á ríkisstjórn sem ég hef stutt með ráðum og dáð sýna af sér hegðun eins og þá að beita pólitískum klækjum til að afnema lög sem stjórnmálamönnum sem eru gamlir í hettunni er illa við og þeir hafa talið þeim stjórnmálamönnum sem langar til að verða gamlir í hettunni trú um að sé besta aðferðin til að stjórnmálamönnum megi takast að verða gamlir í hettunni. Þetta er gamaldags hugsun. Rétt eins og stjórnmálamaðurinn sem sagði: Minn tími mun koma, þá á ég aðeins þá einu ósk til framkvæmdarvaldsins á Íslandi og allra íslenskra stjórnmálamanna og þeirra sem fást við stjórnmál að í þeirra lífi og starfi megi tími sannleikans renna upp og það sem fyrst.