141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

matsáætlun vegna framkvæmda á Vestfjarðavegi 60.

69. mál
[16:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rekja þær gömlu deilur sem hafa verið uppi um vegarstæði í gömlu Gufudalssveitinni sem meðal annars hafa hverfst um hugmyndina að leggja veg samkvæmt því sem kallað hefur verið D-leið sem hefur falið það í sér að leggja veg út með Þorskafirði að norðanverðu eða vestanverðu og síðan yfir Djúpafjörð og Gufufjörð, en eins og menn vita hefur það mál komist í ákveðna pattstöðu.

Nú hefur það gerst að það liggja hins vegar fyrir drög að tillögu að matsáætlun, mat á umhverfisáhrifum á vegagerð á þeim slóðum og þegar grannt er skoðað eru tvær til þrjár leiðir undir.

Hæstv. innanríkisráðherra hefur sem betur fer slegið af allar hugmyndir um að fara svokallaða hálsaleið yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Hins vegar eru þá a.m.k. tveir til þrír kostir eftir. Í fyrsta lagi sá kostur að fara þá leið sem kölluð hefur verið D1-leið og felur það í sér að farið er um Ódrjúgsháls með göng undir Hjallaháls. Í öðru lagi það sem hefur verið kölluð I-leið, þ.e. vegur út með Þorskafirði að austanverðu og síðan yfir Þorskafjörðinn að Hallsteinsnesi og yfir Djúpafjörð og Gufufjörð.

Loks er það þannig að auðvitað ætti, að mínu mati, að koma líka til álita B1-leið, þ.e. sú leið sem þáverandi hæstv. umhverfisráðherra úrskurðaði um að stæðist kröfur um umhverfismál í úrskurði sínum sem lagður var fram í upphafi árs 2007.

Sá úrskurður fól í sér verulega breytingu frá því sem lagt var til grundvallar í umhverfismati á sínum tíma á svokallaðri B-leið um hinn umdeilda Teigsskóg. Ég nefni sem dæmi að í upphaflegu tillögunni er gert ráð fyrir að allt að 12,5% af skóglendi á þeim slóðum gæti spillst en með skilyrðum hæstv. þáverandi umhverfisráðherra var það þannig að um var að ræða möguleika á að skóglendi gæti spillst að 6% og það má, eins og segir hér í drögum að tillögu að matsáætlun, deila um hvort það getur talist umtalsverður hluti eða ekki.

Ef við skoðum þetta síðan í fjárhagslegu samhengi þá er það þannig að á árunum 2015–2018, samkvæmt langtímaáætlun í samgönguáætlun, er gert ráð fyrir 3,2 milljörðum og 5 milljörðum á tímabilinu þar á eftir, þ.e. 8,2 milljörðum. Leiðirnar sem nú er ætlunin að skoða, I-leið og D1-leið, kosta annars vegar 9,1 milljarð og hins vegar 9,7 milljarða en B1-leiðin kostar 6,7 milljarða.

Það er alveg ljóst að hvaða leið sem farin yrði mun hafa nokkur umhverfisleg áhrif. Það kemur meðal annars fram í þessum drögum, þannig að við getum sagt sem svo (Forseti hringir.) að það er ekki það sem ræður úrslitum. Við hljótum í þessu sambandi þegar við erum að undirbúa ákvörðun okkar að skoða líka hinn fjárhagslega þátt og það er alveg ljóst að ef farin er (Forseti hringir.) annaðhvort D1-leið eða I-leið þá mun þessari framkvæmd ekki ljúka á gildistíma núverandi samgönguáætlunar, langtímaáætlunar.