141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

matsáætlun vegna framkvæmda á Vestfjarðavegi 60.

69. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég ætla að árétta nokkur sjónarmið. Það sem ég er að leggja til er að B1-leiðin, sem er ný leið, sem ekki hefur farið í gegnum það ferli sem hér er um að ræða, að sú leið verði líka tekin til skoðunar í því umhverfismati sem ætlunin er að fari fram á vegakostum í Gufudalssveitinni. Síðan mun það bara koma á daginn hvernig þeirri leið og öðrum leiðum þar muni reiða af.

Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að B1-leiðin er ekki sú leið sem Skipulagsstofnun hafnaði á sínum tíma. Við erum að tala um allt annars konar vegagerð. Í öðru lagi getum við ekki horft fram hjá því í þessu sambandi að það er gríðarlegur kostnaðarmunur á þessum einstöku kostum. I-leiðin sem hér hefur verið nefnd er talin kosta 9,7 milljarða kr., D1-leið sem er jarðgöng undir Hjallaháls, vegur yfir Ódrjúgsháls, er talin kosta 9,1 milljarð kr., B1-leið er talin kosta 6,7 milljarða. Í samgönguáætlun, sem er útblásin eins og allir vita, er gert ráð fyrir að við höfum til þessarar framkvæmdar 8,2 milljarða kr. á árunum 2015–2022, um það bil 1 milljarð á ári að jafnaði.

Þetta þýðir að innan þess vegáætlunartímabils sem lýkur í árslok 2022 væri ekki búið að ljúka þeim framkvæmdum með þessu fjármagni ef annaðhvort D1-leið eða I-leið er farin. Þess vegna tel ég að það sé ábyrgðarhluti að láta ekki skoða líka þennan nýja kost sem menn hafa teflt fram og kom í gegnum úrskurð þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, að ábyrgðarhluti sé að hann verði ekki jafnframt skoðaður þegar við erum að fara af stað með matsáætlun. Það mun síðan verða seinni tíma mál að vinna úr þeim kostum sem þá blasa við okkur eftir að umhverfismatið hefur farið fram (Forseti hringir.) og þá auðvitað getur það ekki skaðað að við höfum líka upplýsingar um (Forseti hringir.) þessa B1-leið. Ekki er nú farið fram á meira.