141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

áfengisauglýsingar.

320. mál
[17:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu. Fyrsta spurningin snýr að því hvort auglýsingum á öli þar sem óverulegur munur er á umbúðum áfengs öls og léttöls hafi fjölgað á Ríkisútvarpinu á síðustu missirum. Við sendum þá fyrirspurn til Ríkisútvarpsins og fengum þau svör að þeim auglýsingum sem merktar eru léttöl hafi fækkað um tæplega 40% á milli áranna 2010 og 2011. Þeir telja sig hafa vísbendingar um að þeim muni fækka enn frekar á milli áranna 2011 og 2012 en þær upplýsingar liggja þó ekki fyrir.

Hvað varðar auglýsinguna sem hv. þingmaður vísar í, fyrir hina nýju kvikmynd um James Bond, þá er það alltaf matsatriði ef auglýst er léttöl og léttölsmiðinn er merktur með smáa letrinu en stóra áherslan er lögð á umbúðirnar. Eins og lögin hafa verið túlkuð hér á landi hingað til hefur verið litið á það sem löglega auglýsingu þar sem áfengislögin og fjölmiðlalögin miðast við áfengisinnihald upp á 2,25%, að hreinn vínandi sé 2,25%.

Samkvæmt fjölmiðlalögum eru viðskiptaorðsendingar og fjarkaup fyrir tóbaksvörur og áfengi óheimilar og þarf að vera hægt að færa sönnur á fullyrðingar sem fram koma í viðskiptaboðum og fjarkaupsinnskotum fyrir óáfengar drykkjarvörur. Markmiðið er þá að vernda neytendur, takmarka neyslu á tóbaksvörum og áfengi og taka af öll tvímæli um að þær óáfengu drykkjarvörur sem verið er að auglýsa séu sannarlega á markaði fyrir neytendur, eins og hv. þingmaður nefndi.

Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með áfengisauglýsingum í fjölmiðlum og hún, eða eftir atvikum lögregla, á að meta hvort lög séu hugsanlega brotin og bregðast við samkvæmt því. Fremur en að stjórnmálamenn séu að leggja mat á það hvort þessi tiltekna auglýsing stangist á við lög eða ekki tel ég rétt að málinu sé vísað til fjölmiðlanefndar. Ég lít svo á að rétt sé að vera formlegur í þessu máli.

Ég fór sjálf á umrædda mynd í gær og gat ekki hætt að hugsa um hvort James Bond væri að ýta undir áfengisneyslu. Ég kom hins vegar heim og sagði: Mig langar ekki í áfengi. Hann fór svo illa á henni. Það er annað mál, það tengist ekki auglýsingunni en ég kem því að hér í leiðinni.

Hv. þingmaður nefnir líka ákvæði um tjáningarfrelsi, hvort lýðheilsusjónarmið geti vegið þyngra en ákvæði um tjáningarfrelsi þegar við skoðum áfengisauglýsingar. Ákvæði áfengislaga og fjölmiðlalaga eru skýr, núgildandi lög eru skýr, hvað varðar auglýsingar á áfengi samkvæmt skilgreiningu laga. Hins vegar er oft verið að búa efni auglýsinga í búning, það tel ég alveg ljóst, sem getur orkað tvímælis þó að formlega séu þær innan ramma gildandi laga. Það hefur verið staðfest réttilega í þeim dómi frá Hæstarétti, sem vísað er í í fyrirspurninni, að vegna heilsuverndarsjónarmiða sé heimilt, samkvæmt 3. mgr. 33. gr. stjórnarskrárinnar, að takmarka tjáningarfrelsi og setja því mörk sem um getur í 20. gr. áfengislaga. En í dómi Hæstaréttar er ekki talið að sú grein áfengislaga fari í bága við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

Ég undirstrika að það er hlutverk dómstóla að skera úr um hvort lög séu brotin og það gildir um umrædda auglýsingu sem og aðrar sem orkað geta tvímælis. Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni að skýra þurfi þessi mál betur eins og lagt er til í frumvarpinu sem hæstv. innanríkisráðherra hefur lagt fyrir þingið. Ég held að það eigi að vera hlutverk löggjafans að skýra löggjöfina fremur en að skera úr um hvort lögin séu brotin, ég tel að það sé dómstólanna. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég tel að það sé mjög mikilvægt mál á þessu þingi.