141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

rekstur og stjórnsýsla Vatnajökulsþjóðgarðs.

246. mál
[18:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda spurninguna og líka að hún var svo stutt og laggóð. Ég ætla að reifa aðeins málið og bakgrunninn.

Vatnajökulsþjóðgarður er eitt metnaðarfyllsta verkefni íslenskra stjórnvalda í náttúruvernd. Garðurinn þekur nærri 15% af flatarmáli landsins og telst stærsti þjóðgarður Evrópu. Hann var stofnaður 2008 og er enn í uppbyggingu. Frá stofnun þjóðgarðsins hefur nánast allur eiginlegur rekstur, uppbygging og allar framkvæmdir hans verið á landsbyggðinni, eðli málsins samkvæmt.

Stjórnsýsla þjóðgarðsins er mjög sérstök í ríkisrekstrinum. Hún er valddreifð þar sem starfa fjögur svæðisráð með fulltrúum sveitarfélaga og félagasamtaka og formenn svæðisráðanna eru síðan fulltrúar í sjö manna stjórn þjóðgarðsins. Auk þeirra eru í stjórn þjóðgarðsins formaður og varaformaður sem skipaðir eru af ráðherra og fulltrúi umhverfisverndarsamtaka. Stjórnin ræður síðan framkvæmdastjóra.

Starfsstöðvarnar eru með heilsársstarfsemi svo og árstíðabundna. Þær eru í Ásbyrgi við Mývatn, á Skriðuklaustri í Fljótsdal, á Höfn í Hornafirði, í Skaftafelli og Kirkjubæjarklaustri með alls tíu starfsmönnum í heilsársstöðum, en á höfuðborgarsvæðinu er ein starfsstöð með einum og hálfum heilsársstarfsmanni.

Árstíðabundnar starfsstöðvar fyrir landvörslu og landverði, fyrst og fremst yfir aðalferðamannatímann, eru nú tólf talsins eða í Jökulsárgljúfrum, við Öskju, í Herðubreiðarlindum, í Hvannalindum, í Kverkfjöllum, við Snæfell, á Lónsöræfum, við Lakagíga, í Blágiljum, við Eldgjá, í Hrauneyjum og Nýjadal.

Framkvæmdastjóri garðsins hefur aðsetur og starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu eins og fram hefur komið. Þjóðgarðurinn hefur talið það heppilegt fyrirkomulag að hafa litla starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu en þar er jafnframt aðstaða fyrir starfsmenn af landsbyggðinni og ýmislegt hagræði vegna sameiginlegra funda og samræmingar á starfi starfsstöðvanna á landsbyggðinni. Ekki eru hins vegar uppi nokkur áform um að stækka starfsstöðina á höfuðborgarsvæðinu.

Það stjórnarfyrirkomulag þjóðgarðsins sem lagt var upp með við stofnun hans var nýjung við stjórnun og rekstur náttúruverndarsvæða hér á landi. Það skiptir auðvitað mjög miklu að skilvirkni og sátt sé um rekstur svona stórs hluta landsins sem er ætlað að varðveita til framtíðar margar af stórkostlegustu náttúruperlum okkar sem falla innan þjóðgarðsmarkanna en leyfa jafnframt hóflega nýtingu á ýmsum auðlindum svo sem beit og veiði. Þess vegna er mikilvægt í þessari umræðu að benda á að samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, skal fara fram endurskoðun á stjórnarfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs núna í vetur — það er falið í lögunum — og eigi síðar en 1. janúar 2013 í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Þessi endurskoðun er í undirbúningi í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og má gera ráð fyrir að á þeim grunni gefist gott tækifæri til að greina reynsluna af núverandi stjórnarfyrirkomulagi, aðkomu sveitarfélaganna og heimamanna, náttúruverndarsamtaka og annarra hagsmunaaðila og ræða frekar í framhaldinu hvernig það verði sem best skipulagt til framtíðar.

Við uppbyggingu og þróun garðsins hafa komið upp ýmis sjónarmið, m.a. sú áhersla sem kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns. Ég hef heyrt þeim sjónarmiðum hreyft þónokkuð oft. Ég tel einboðið að sú umræða verði hluti af þeirri lögboðnu endurskoðun sem á að fara fram nú í vetur. En í svari mínu vildi ég draga skýrt fram, virðulegi forseti, hversu lítill hluti af utanumhaldi þjóðgarðsins er í raun og veru fyrir hendi á höfuðborgarsvæðinu.