141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu hér. Þótt hv. þm. Jón Bjarnason hefði gjarnan viljað ræða þetta mál fyrr eins og fram kom í máli hans hefur hæstv. ráðherra nokkuð til síns máls í því að það er á vissan hátt gagnlegt að fara yfir þetta nú þegar upplýsingar liggja allar fyrir.

Þá vil ég beina því til hæstv. ráðherra að þær upplýsingar verði notaðar til að komast að raun um það hvað megi læra af þessu, hvernig megi undirbúa viðbrögð við svona áföllum betur, hvað megi almennt betur fara. Vonandi fer hæstv. ráðherra yfir það í ræðu sinni á eftir.

Jafnframt er mjög mikilvægt þegar svona áföll dynja yfir að menn vinni að því, allir sem einn, einkum og sér í lagi af hálfu stjórnvalda, að eyða óvissu eins og kostur er. Hluti af áfallinu og eftirmálum þess hefur verið sá að óvissunni hefur ekki verið eytt, menn vita ekki alveg hvar þeir standa, til dæmis hvað varðar bætur. Það væri mjög óheppilegt ef þetta leiddi til þess að einhverjir þyrftu að bregða búi, sérstaklega ef það væri vegna þess að menn hefðu ekki haft þær upplýsingar sem þeir þurftu til að gera áætlanir fram í tímann. Á fyrstu dögum og vikum eftir að svona atburðir verða er mjög mikilvægt að menn búi ekki við óvissu, hún getur jafnvel leitt til þess að þeir taki ákvarðanir sem hefðu verið óþarfar, eins og þær að bregða búi sem vonandi verða ekki mörg dæmi um.

Það stendur yfir söfnun þar sem verið er að safna fjármagni til stuðnings þeim sem verst fóru út úr þessu óveðri en það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið geri grein fyrir því hvernig það muni koma til móts við þá sem urðu fyrir tjóni í hamförunum.