141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Stundum er sagt að pólitísk gerjun og stefnumótun fari ekki síst fram í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna. Þar eru þeir sem eiga að erfa landið. Stundum er sagt að þar sé að finna framtíðarforustumenn í stjórnmálum.

Hér hef ég stefnuplagg Sambands ungra sjálfstæðismanna í ríkisfjármálum fyrir árið 2013. Hvað er þar að finna, virðulegi forseti? Þar er samfelldur niðurskurður á verkefnum til samfélagslegra þarfa, alveg sama hvert litið er. Marga starfsemi á að slá algerlega út af borðinu í tillögum ungra sjálfstæðismanna. Þar má nefna starfsemi eins og Lánasjóð íslenskra námsmanna, hún á bara að hverfa. Rannsókna- og vísindastarf við Háskóla Íslands, rannsóknastarfsemi, nám á framhaldsstigi vegna aðstæðna á vinnumarkaði, Ríkisútvarpið, framlög til lista, þar má nefna Þróunarsamvinnustofnun og alþjóðlega þróunarstarfsemi, allt á þetta að hverfa. Hafrannsóknastofnun, mikilvæg vísindastofnun í grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, á að fara. Að sjálfsögðu vilja ungir sjálfstæðismenn ekki sjá stuðning við landbúnaðinn og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, upp á 15 milljarða, á að hverfa.

Þannig mætti áfram telja tillögur ungra sjálfstæðismanna um það sem á að taka út úr fjárlögum ársins 2013. Nú geta menn vissulega sagt: Þetta eru bara ungliðasamtök stjórnmálaflokka sem eru að gamna sér við tillögur af þessum toga. En sannleikurinn er sá að hvað ungur nemur gamall temur. Hér er verið að vísa veginn. Hér er verið að segja ákveðinn hug.

Ég óska Sjálfstæðisflokknum til hamingju með hreinskilnina hjá ungum sjálfstæðismönnum en ég óska þjóðinni þess að þessar hugsjónir séu ekki á leið til áhrifa í íslensku samfélagi.