141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er full þörf á að ræða skattstefnu þessarar ríkisstjórnar en ekki þeirrar næstu. Varðandi auðlegðarskattinn sem hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á þá heyri ég ekki annað en að hann sé að boða framhald auðlegðarskattsins sem er tímabundinn skattur. Ríkisstjórnin lofaði því í upphafi að hann ætti einungis að gilda til næstu áramóta og framlengdi hann síðan. Það er ekki annað að heyra en að stjórnarflokkarnir hyggist framlengja skattinn. Ég hvet þá til þess að taka af skarið með það.

Ég sé þarna til fjármálaráðherrans fyrrverandi sem ætti að koma hingað upp og tala fyrir stefnu flokks síns um að framlengja auðlegðarskattinn. Það er talað um að allir þeir sem borgi skattinn hafi til þess góð fjárráð, væntanlega líka þeir fjölmörgu eldri borgarar sem hafa undir 80 þús. kr. í framfærslu á mánuði. Það er talað til allra þeirra sem þannig er fyrir komið og sagt að þeir geti bara selt eigur sínar. Hvað eignir eru það sem þeir eiga að selja? Hver er helsta eign eldri borgara í landinu? Það er húsnæðið sem þeir búa í. Þannig er talað til þessa fólks, þannig er skattstefna stjórnarflokkanna. Þeir hrista hér hausinn hver á fætur öðrum en þannig er veruleikinn.

Það er kominn tími til þess að tala í þinginu um atlögu ríkisstjórnarinnar að kjörum eldri borgara í landinu. Það birtist ekki bara í því sem ég hef hér rakið heldur birtist það í svo fjölmörgu öðru, hvernig verðbólgan hefur étið upp kaupmátt bóta eldri borgara, hvernig eldri borgarar voru hraktir af vinnumarkaði með harkalegum tekjutengingum þeirra árið 2009. Hvað sagði í frumvarpinu sjálfu um þá aðgerð? Þar var sagt hreint út: Það er annað fólk sem þarf þessi störf.

Við í Sjálfstæðisflokknum tölum fyrir stefnu sem gengur út á það að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, að taka ekki möguleikana af fólki til að bjarga sér. Enginn sem er yfir 70 ára aldri er að störfum í dag (Forseti hringir.) án þess að hafa af því ánægju, sem er kannski ekki síður mikilvægt, og hafa fyrir það þörf. Ef það er einhver sem ætti að skilja þarfir þeirra sem eru orðnir 70 ára eða eldri er það forsætisráðherrann sem skipar einmitt þann hóp. (Gripið fram í.)