141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Margt hefur borið á góma undir þessum lið og mjög margt sem hægt væri að tala um. Mig langar að beina orðum mínum að skattamálum af því tilefni að hv. þm. Helgi Hjörvar hélt hér mikla ræðu sem byggðist á því hvaða stefnu Sjálfstæðisflokkurinn hefur og vangaveltum um hvað Sjálfstæðisflokkurinn ætli að gera eftir kosningar þegar hann verði kominn í ríkisstjórn, sem er gott og vel. Ég hef áður bent þingmönnum á, og þá sérstaklega hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni, að meðan menn úr Vinstri grænum og Samfylkingunni beina allri sinni orðræðu og snúa öllu sínu máli að því hvað Sjálfstæðisflokkurinn muni gera, hvað Sjálfstæðisflokkurinn ætli að gera eða hvað Davíð Oddsson hafi gert eða hefði hugsanlega ætlað að gera þá láta þeir hinir sömu Sjálfstæðisflokkinn stjórna svolítið pólitík sinni. Ég vil benda fólki á að kannski sé betra að beina augum að því hvað það ætli sjálft að gera.

Svo kemur að auðlegðarskattinum. Þessi skattur hét áður eignarskattur og var oft í daglegu tali nefndur ekknaskattur vegna þess að eldri borgarar sem hafa fjárfest í húsnæði og eiga það nánast skuldlaust þurfa að greiða þennan skatt. Þessir sömu eldri borgarar eru ekki með tekjur og til að geta greitt þennan álagða skatt þurfa þeir að selja eignir. Í mörgum tilfellum eru þetta ekklar eða ekkjur sem standa þá frammi fyrir því að þurfa að selja húsið sitt, eignina sína, sem þau hafa eytt allri ævinni í að koma sér upp með maka sínum. Þessi skattur er ekki góður og leiðir hvorki af sér gott andrúmsloft né nokkuð gott að mínu viti. Þess vegna tel ég að afnema beri skattinn.

Síðan talaði ágætur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson um fjárlagatillögur SUS-ara. Ég verð að segja að það er þörf á því að hver sem er sem hefur (Forseti hringir.) skoðun á íslenskum fjármálum og skuldastöðu ríkisins komi fram með tillögur um það með hvaða (Forseti hringir.) hætti sé hægt að draga úr kostnaði (Forseti hringir.) og útgjöldum ríkissjóðs. Auðvitað ber að lesa þessar tillögur sem og aðrar hugmyndir um útgjaldaminnkun af (Forseti hringir.) jákvæðni þótt maður sé ekki sammála þeim öllum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann.)