141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[15:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það getur enginn sagt að ekki hafi verið varað við afleiðingu veiðigjaldanna þegar þau voru lögfest síðasta vor. Það gerðu hagsmunaaðilar, sérfræðingar sem atvinnuveganefnd kallaði fyrir sig og það gerðum við líka fjölmargir þingmenn í umræðunni á þeim tíma. Því miður var ekki á það hlustað. Þess vegna stöndum við í þessum sporum nú og ræðum grafalvarlegar afleiðingar þessarar löggjafar og birtist þeim sem við eiga að búa í formi greiðsluseðlanna frægu sem bárust inn um bréfalúgur útgerðanna í september með kærri kveðju frá Steingrími J. Sigfússyni, hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Ekki eru miklar deilur um að rétt sé að útgerðin greiði gjald fyrir nýtingarrétt á auðlindinni. Þær deilur voru settar niður fyrir um það bil áratug. Deilurnar núna snúast um þá aðferð sem verið er að beita og þá upphæð sem ætlunin er að innheimta. Því miður var illa staðið að þessari löggjöf. Þrátt fyrir að ætlunin hafi verið að fara inn á nýjar brautir, allsendis óþekktar brautir, við þessa skattlagningu var ekki leitað fanga við undirbúning hjá okkar færasta fólki sem við eigum á að skipa, t.d. á sviði auðlindahagfræði. Undirbúningurinn var pólitískur og sérfræðilegrar ráðgjafar var ekki leitað.

Í raun gafst ríkisstjórnin upp á því að beita á fyrsta árinu þeirri aðferð sem ætlunin var að fylgja við álagningu hinna nýju veiðigjalda. Þess vegna var líkt og í skákinni tefldur eins konar biðleikur en að óbreyttu mun hin meingallaða nýja aðferð taka gildi á næsta fiskveiðiári og fara stighækkandi næstu fimm árin. Smám saman mun því sverfa að fleiri útgerðum í landinu.

Veiðigjöldin eins og þau eru hugsuð, og kemur fram í löggjöfinni, eru meðaltalsgjöld. Þau taka ekki tillit til stöðu einstakra útgerða, ekki tillit til einstakra útgerðarflokka, ekki til gerðar útgerðanna eða margbreytilegra aðstæðna í svo fjölþættri og stórri atvinnugrein sem sjávarútvegurinn sannarlega er. Þó að hinn yfirlýsti tilgangur sé að heimta gjald fyrir aðgang að auðlindinni er rekstur fiskvinnslu einnig lagður til grundvallar sem mun bitna harkalega á hreinum útgerðum, fyrirtækjunum sem eru rekin af einstaklingum og fjölskyldum, einyrkjunum, nýliðunum eins og allir vita og er óvefengjanlegt.

Það er ljóst mál, og við því var varað, að afleiðingar nýju veiðigjaldanna verða aukin samþjöppun í greininni. Hinn nýi skattur mun leggjast þungt á greinina í heild og með ofurþunga á tiltekinn hluta hennar. Það er þannig ljóst að hreinar botnfisksútgerðir verða sérlega illa úti í þessari æfingu ríkisstjórnarflokkanna. Skoðum aðeins tölur.

Hlutfall hreinna botnfisksútgerða í úthlutuðu aflamarki er 14% en framlegð þeirra er eingöngu 9%. Blandaðar útgerðir og vinnsla í uppsjávarfiski og botnfiski hafa á hinn bóginn 47% úthlutunarinnar í þorskígildum talið en 59% heildarframlegðar hennar. Það blasir þess vegna við hvernig gjöldin munu bitna með hlutfallslega miklum þunga á hreinum útgerðum botnfiskskipa. Hættan sem við blasir er þá sú að þetta útgerðarform láti undan síga. Það verður sem sagt aukin samþjöppun í greininni. Var það þetta sem að var stefnt?

Við sjáum bara á tíðindum síðustu mánaða, eftir að löggjöfin var ákveðin, að þetta er þegar orðin þróunin. Hinir stærri stækka, hinir minni hverfa út úr greininni. Þetta mun svo leiða til mikilla tilfærslna á aflaheimildum á milli byggðarlaga og byggðaröskunar. Og hvað er þá orðið um allt þetta tal um byggðatengingu veiðiréttarins sem við heyrum oft talað um úr ræðustóli Alþingis? Var ekkert að marka það?

Það er því miður heila málið með þessa nýju veiðigjaldalöggjöf að hún vinnur þvert gegn þeim markmiðum sem hent er á lofti í umræðunni um aukna fjölbreytni í útgerð, nýliðun, hagsmuni byggða og þar fram eftir götunum. Svo voga stjórnarliðar sér að segja að þetta verði allt saman lagað með leigukvótakerfi ríkisins til eins árs í senn.

Ég vek athygli á því sem Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sem er með langflest sjávarútvegsfyrirtæki í viðskiptum, sagði á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðvanna í haust. Hann benti á að mikið ójafnvægi hefði myndast í sjávarútveginum, veiðigjaldið leggist þungt á félög í vinnslu og útgerð bolfisks en þyngst þó á hrein útgerðarfélög. Stóru fyrirtækin skuldi minna, eigi meira og skili meiri framlegð. Svo segir bankastjórinn orðrétt: „Vegna veiðigjalds er samþjöppun orðið þvingað úrræði fyrirtækja í erfiðri stöðu.“ Ég spyr: Ætla menn ekki að hlusta? Á stöðugt að berja hausnum við steininn?

Annað skiptir líka máli í þessu sambandi. Við vitum að afkoman í sjávarútvegi er ákaflega misjöfn eftir þeim fisktegundum sem menn veiða. Löggjöfin tekur ekki tillit til þess. Nú hafa verið birtir útreikningar sem sýna að þegar veiðigjöldin hafa verið greidd þá er hreint tap á veiðum af fjölmörgum fisktegundum og er þá ekki tekið tillit til fjármagnskostnaðar. Þá er auðvitað sjálfhætt. Sókn í tilteknar fisktegundir leggst af. Þetta gæti átt við veiðar á rækju, veiðar frystitogara á síld, makríl og gulllaxi, veiði línubáta á löngu, blálöngu og keilu. Þetta mun auðvitað stórskaða afkomu okkar allra.

Því miður hefur óskaplega óhönduglega tekist til við lagasetningu um veiðigjöldin. Því er full ástæða til að endurskoða þessa löggjöf tafarlaust og miða gjaldtökuna við að sjávarútvegurinn ráði við hana og geti hafið fjárfestingar að nýju.