141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[16:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil hvetja síðasta ræðumann til að fara út í byggðirnar og ræða við fólkið þar.

Varðandi veiðigjöld er ljóst að varað var við því að fara þá leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara, það hefur komið fram, og alveg ljóst að á það var ekki hlustað. Það var varað við mögulegum afleiðingum. Sumar þeirra hafa gengið eftir eða eru að ganga eftir. Nú er verið að falbjóða minni útgerðarfyrirtæki þeim stærri. Það er samþjöppunin sem varað var við, sú samþjöppun sem við vildum ekki fá. Við vildum ekki að þetta mundi leiða til þess að útgerðir yrðu færri og stærri, en það varð nú samt raunin. Á þetta var bent.

Veiðigjaldið er landsbyggðarskattur fyrst og fremst. Þetta er gjald, skattur, sem leggst fyrst og fremst á byggðirnar hringinn í kringum landið, en einnig á höfuðborgina sem er mjög stór útgerðarstaður.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um hagnað í sjávarútveginum. Á meðan við rekum ekki ríkisstyrktan sjávarútveg verður að verða til hagnaður í greininni vegna þess að hagnaðurinn er að sjálfsögðu notaður til að greiða af lánum, til að fjárfesta o.s.frv. Ef menn vilja hins vegar taka upp ríkisstyrktan sjávarútveg sem er kannski markmið ríkisstjórnarinnar, ég skal ekki segja, halda þeir áfram á þessari braut. En menn verða að hafa í huga að Íslendingar keppa á alþjóðamörkuðum með afurðir sínar. Í langflestum tilvikum keppum við við mjög ríkisstyrktan sjávarútveg á margan hátt.

Ég hef bent á, í grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu, hvernig þessu er meðal annars háttað hjá Norðmönnum. Núna keppum við við Rússa um ákveðnar tegundir, en þeim hefur farið mjög fram í framleiðslu sinni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem nefndi markaðsaðstæður, hvort ráðherra hafi íhugað hvernig ríkisstjórnin gæti komið að málum og brugðist við ef fram heldur sem horfir, markaðurinn dregst saman og samkeppnin verður harðari fyrir Íslendinga. Hvernig getur ríkisstjórnin komið að? Mér sýnist (Forseti hringir.) einboðið að fara þurfi í sameiginlegt átak ef við ætlum að (Forseti hringir.) hafa sjávarútveginn áfram sem okkar aðalatvinnuveg.