141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[16:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu, en sérkennilegt var að halda því fram að verið væri að tala niður til sjávarútvegsins þegar menn voru einfaldlega að vekja athygli á afleiðingum aðgerða ríkisstjórnarinnar gagnvart sjávarútveginum. Þegar sjávarútvegurinn hefur brugðist til varnar og bent á þá hluti sem við höfum verið að færa hér inn í umræðuna, er þá sjávarútvegurinn sjálfur að tala niður atvinnugreinina? Auðvitað ekki. Þegar smábátasjómennirnir ályktuðu gegn veiðigjaldinu eins og það er framkvæmt voru þeir að tala niður smábátaútgerðina í landinu, svo dæmi sé tekið? Auðvitað er það fráleitt.

Það sem við bentum á er að núna eru að koma í ljós alvarlegar afleiðingar af þeirri löggjöf sem samþykkt var í vor. Þess vegna er eðlilegt að taka þessi mál upp á Alþingi, hér voru lögin sett, og hvetja til þess að þau verði endurskoðuð af einhverju viti.

Ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á því, eftir þessa umræðu, hvert sé raun og veru verið að stefna. Annars vegar talaði helsti hugmyndafræðingurinn og kenningarsmiðurinn að þessu máli, hv. þm. Helgi Hjörvar, sem undirbjó málið tæknilega. Hann var sérfræðingurinn sem hæstv. ríkisstjórn leitaði til til að undirbúa málið um að sjávarútveginum væri nú ekki of gott að greiða þessa smáaura í ríkissjóð. Hins vegar talaði hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um að það væri eðlilegt að andlag veiðigjaldanna tæki mið af mismunandi flokkun. Ég tek undir það, það var hluti af þeirri gagnrýni sem ég var einmitt að setja fram áðan. Þá hefði verið eðlilegt, hæstv. ráðherra, að áður en farið var í stóru kerfisbreytinguna varðandi veiðigjöldin og tekin ákvörðun um að stórhækka þau hefði verið reynt að leita leiða til að útfæra þá hugmynd. Það hefði verið skynsamlegra. Það dugar ekki eingöngu að vísa á veiðigjaldanefnd. Ég veit að henni er ætlað gríðarlega mikið hlutverk.

Er þess að vænta, hæstv. ráðherra, að í haust komi fram frumvarp frá ráðherra þar sem tekið verður tillit til þess sem ég var að segja um áhrifin á veiðar einstakra tegunda? Er ætlunin að bregðast við og gera breytingar á löggjöfinni til að koma til móts (Forseti hringir.) við áhyggjur manna í greininni sem sannarlega eru réttmætar? Þar eru menn ekki að kalla úlfur, úlfur. Þar hafa menn réttmætar (Forseti hringir.) og miklar áhyggjur. Mér finnst að við getum ekki leyft okkur eins og hér var gert að hluta til í umræðunni, ekki reyndar af hæstv. ráðherra, að tala (Forseti hringir.) niður og tala svo illa til þess fólks sem er einfaldlega að láta réttmætar áhyggjur sínar í ljós.