141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

236. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 250, um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu, sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Álfheiði Ingadóttur, Birgittu Jónsdóttur, Birni Val Gíslasyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Helga Hjörvar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Margréti Tryggvadóttur, Merði Árnasyni, Ólínu Þorvarðardóttur, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Skúla Helgasyni, Valgerði Bjarnadóttur, Þór Saari, Þráni Bertelssyni og Þuríði Backman.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.“

Stjórnmálasamband Íslands og Ísraels á sér nokkuð langa sögu og hafa viðskipti milli þjóðanna farið vaxandi. Þannig hefur innflutningur á vörum frá Ísrael nær tvöfaldast á sl. fimm árum. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni nam innflutningur þaðan 562,6 millj. kr. árið 2007 og rúmlega einum milljarði árið 2011 og reikna má með að hann verði ekki minni á árinu 2012.

Víða um heim hafa stjórnvöld og neytendur vaknað til vitundar um að hluti útflutningsvara frá Ísrael eigi uppruna sinn ekki að rekja til svæða innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Ísraelsríkis — en þá er miðað við landamæri ríkisins frá 1948 — heldur til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu, en þær eru einkum á vesturbakka Jórdanar og í austurhluta Jerúsalemborgar. Þessum byggðum hefur farið fjölgandi undanfarin ár og er íbúafjöldinn í þeim kominn yfir hálfa milljón, enda þótt þær stríði gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum, úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag og fjölda ályktana Sameinuðu þjóðanna.

Eins og gefur að skilja hefur þessi þróun skaðað lífskjör Palestínumanna en ekki má heldur vanmeta hversu umdeildar byggðirnar eru meðal ísraelskra borgara. Núverandi stjórnvöld í Ísrael virðast þó fylgja þeirri stefnu að taka aukið land og vatnsból frá Palestínumönnum undir byggðir landnema. Af þeim sökum hafa þær reynst einn helsti þröskuldurinn í vegi frekari friðarviðræðna fyrir botni Miðjarðarhafs auk þess sem reglulega kemur til átaka milli landnema og Palestínumanna sem verða að sjá af ræktarlöndum sínum.

Ísland hefur aldrei — ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar — viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta Ísraelsríkis. Það ætti því ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem framleiddar eru í landnemabyggðunum. Nokkur lönd hafa þegar hafið vinnu við samningu reglugerðar þess efnis að upprunamerking þessara vara verði umræddar landnemabyggðir en ekki Ísrael. Í Danmörku birti matvæla-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið reglugerð 5. október sl. um hvernig eigi að merkja vörur frá landnemabyggðum. Í Bretlandi, Suður-Afríku og fleiri löndum virðist málið hins vegar enn vera í undirbúningi og/eða umsagnarferli.

Meðal þeirra ásakana sem stjórnvöld í þessum löndum hafa orðið að bregðast við er sú að með þessu sé ætlunin að draga úr viðskiptum við Ísrael. Þessu hefur viðskipta- og iðnaðarráðherra Suður-Afríku, Rob Davies, hafnað og bent á að það sé skylda þarlendra stjórnvalda að framfylgja lögum um neytendavernd með þessum hætti, enda sé í þeim kveðið á um að uppruni vara skuli tilgreindur. Sem meðlimur í Sameinuðu þjóðunum geti Suður-Afríka ekki viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta af Ísraelsríki og því sé ekki hægt að tilgreina Ísrael sem upprunaland vara sem framleiddar eru þar. Í þessu sambandi má geta þess að í Sviss hafa stórmarkaðskeðjurnar Migros og Coop haft frumkvæði að því að sérmerkja vörur frá landnemabyggðum og upplýst að það sé til þess að veita viðskiptavinum fullnægjandi upplýsingar um vörurnar sem í boði eru en ekki til að hvetja þá til að sniðganga ísraelskar vörur.

Með þeim ráðstöfunum sem þessi þingsályktunartillaga kallar eftir yrði íslenskum neytendum gert kleift að taka sjálfir ákvörðun um hvort þeir vilja styðja efnahagslíf á ólöglegum landnemabyggðum á hernumdu svæðunum í Palestínu. Ekki er víst að sérmerking slíkra vara muni hafa mikil áhrif á viðskipti Íslands og Ísraels, heldur ættu þær frekar að gera vörur sem skráðar eru sem ísraelskar afurðir síður tortryggilegar.

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og Frelsissamtök Palestínumanna, PLO, hafa gert með sér bráðabirgðafríverslunarsamning sem tók gildi 1. júlí 1999 og er samningurinn birtur sem fylgiskjal með þessari þingsályktunartillögu. Tilgangurinn með gerð bráðabirgðasamningsins við PLO var að tryggja jafnvægi milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við löndin við sunnanvert Miðjarðarhaf. Þá var samningurinn talinn mikilvægur hlekkur í stuðningi við friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs. Skemmst er frá því að segja að samningurinn hefur ekki verið virkur sem skyldi og viðskipti EFTA við heimasvæði Palestínu eru takmörkuð. Heildarviðskiptin námu einungis 33,6 milljónum bandaríkjadala árið 2011. Þá hefur því verið haldið fram að Ísrael komi í reynd í veg fyrir að Palestínumenn nái að fullnusta þennan samning og njóta þeirra fríðinda sem honum fylgja því að landsvæði Palestínumanna séu sundurrist af múrum sem koma í veg fyrir að þeir geti yrkt land sitt og eðlilegir vöruflutningar geti farið fram.

Þess má gjarnan geta að á vettvangi þingmannanefndar EFTA og á fundum þingmannanefndar EFTA með utanríkisráðherrum og viðskiptaráðherrum EFTA-ríkjanna hefur einmitt fríverslunarsamninginn við Palestínu og þau málefni iðulega borið á góma.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, virðulegur forseti. Ég tel mikilvægt að þessu verði hleypt af stokkunum og ríkisstjórninni verði falið að undirbúa þær ráðstafanir sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. atvinnuveganefndar.