141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

opinberir háskólar.

319. mál
[16:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga fram stöðu þessara skóla. Við höfum auðvitað rætt hana áður bæði í þessum sal og á fundum. Mitt mat er það að vandi háskólastigsins felist ekki endilega í fjölda háskóla, eins og hefur verið lenska að ræða um, heldur þurfi fyrst og fremst að horfa til þess að þegar við skoðum hvernig við rekum háskólastig okkar er það svo að við greiðum talsvert minna með okkar háskólastigi en þau lönd sem við berum okkur saman við. Þó að æskilegt væri að horfa til þess að við getum nýtt kraftana saman, eins og ég tel að við séum að gera með samstarfsnetinu, breytir það því ekki að rekstrarstaða háskólanna er mjög erfið. Þegar rætt er um sameiningar háskóla finnst mér mjög mikilvægt að fólk geri grein fyrir því hvort ætlast er til að skólarnir sameinist, sem hefur ekki endilega sparnað í för með sér, eða hvort hugsunin sé hreinlega að leggja niður ákveðnar stofnanir, deildir eða einingar.

Þegar horft er á þessa skóla og ef við ræðum sérstaklega um landbúnaðarháskólana þá er Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri í raun og veru einn að fást við umtalsverðan hluta af því námi sem hann hefur boðið fram. Við höfum látið meta hugsanlega hagræðingu af sameiningu þess skóla við Háskóla Íslands. Niðurstaðan úr því varð að sú sameining gæti haft í för með sér faglega spennandi möguleika en hún hefði ekki í för með sér hagræðingu svo fremi sem við viljum viðhalda námsframboði á þessum sviðum. Það sama má segja um Hólaskóla. Ég tel því mjög mikilvægt að við horfum á þessa umræðu út frá námssviðunum. Mat mitt er það að báðir þeir skólar séu að bjóða upp á mjög mikilvægt framlag á sviði kennslu á tilteknum sviðum og rannsókna.

Við höfum haft til umfjöllunar í ráðuneyti okkar mögulegar aðgerðir til að skoða fjárhagsstöðu þessara skóla og þeir hafa líka verið að skoða aðgerðir til að draga saman eða efla sértekjur. En sem stendur liggja ekki fyrir auknar fjárveitingar til skólanna. Mat mitt er það hins vegar að þær þurfi að koma til samhliða hagræðingu í rekstri.