141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eitt helsta verkefni okkar í stjórnmálum hér á næstu árum verður að draga úr vaxtakostnaði ríkissjóðs til að geta aukið framlög til velferðar. Vaxtagjöld ríkissjóðs eru á níunda tug milljarða kr. en það er nærfellt 1 millj. kr. í vaxtakostnað fyrir hvert heimili í landinu til að setja umfang kostnaðarins í samhengi.

Ég fagnaði því þess vegna að ríkisstjórn Íslands ræddi í gær lánakjör á lánum Norðurlandanna til Íslands og að kanna möguleika á því að fá endurskoðuð vaxtakjörin þar. Í upphafi októbermánaðar spurðist ég fyrir um það með formlegri fyrirspurn til norrænu ríkisstjórnanna hvort það kæmi til greina og hef fengið svar þar um frá ríkisstjórnunum. Ástæðan er sú að Írar hafa fengið svipuð lán og við en með langtum hagstæðari vöxtum, 1% í staðinn fyrir 2,75%. Þegar lánsfjárhæðin er yfir 100 milljarðar kr. eins og í okkar tilfelli munar milljörðum í hverju vaxtaprósenti.

Vísað er til þess í svari norrænu ríkisstjórnanna að lánskjörin ráðist af lánstímanum og tapsáhættunni og það er auðvitað til þess að líta að frá því að við tókum lánin hefur mjög dregið úr tapsáhættu vegna Íslands því að hér hefur efnahagur allur mjög styrkst. Sömuleiðis höfum við endurgreitt lánin mun hraðar sem hefur áhrif á hinn raunverulega lánstíma fjármunanna og það gefur líka tilefni til að endurskoða þessi kjör að mínu viti, auk þess sem norrænu ríkisstjórnirnar vísa til þess að ekki hafi borist ósk frá Íslandi um þessa endurskoðun. Ég tel að það sé ótvíræð opnun fyrir okkur að setja formlega fram þá ósk og fagna því að ríkisstjórnin er að ræða þetta og því að forsætisráðherra hefur tekið þetta upp í Helsinki á fundi Norðurlandaráðs, og sömuleiðis fjármálaráðherra við sinn kollega.

Ég þakka (Forseti hringir.) þingmönnunum Illuga Gunnarssyni, Álfheiði Ingadóttur og Siv Friðleifsdóttur fyrir liðveisluna í sínum þingflokkum á Norðurlandaráðsþingi.