141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

viðræður við kröfuhafa gömlu bankanna.

[11:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil bara árétta það sem mér fannst ég heyra hér áðan og ég held að forseti geti aðstoðað okkur þingmenn í því máli, hér komu misvísandi skilaboð að mínu viti. Sagt var að Seðlabankinn virtist hafa ákveðið vald eða hafa ákveðnu hlutverki að gegna og jafnframt komu fram þau skilaboð að Seðlabankinn gæti ekki gert ákveðna hluti.

Mig langar því að fara fram á það við hæstv. forseta að hann beini því til hæstv. forsætisráðherra að skila okkur einhvers konar greinargerð eða minnisblaði um það hvert valdsvið Seðlabankans er nákvæmlega varðandi þá gjörninga sem hér eiga sér stað.

Hvað getur Seðlabankinn gert og hvað getur hann ekki gert?

Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því. Þarf ekki að endurskoða það? Þarf ekki þingið að beita sér fyrir því að starfsemi Seðlabankans og yfirstjórn hans sé endurskoðuð frá grunni? Það getur ekki verið eðlilegt að það muni nærri helmingi á spám Seðlabankans og raunveruleikanum í dag, þar skeikar um 700 milljörðum. Menn hafa nú verið ásakaðir fyrir smærri upphæðir í Seðlabankanum.