141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Rétt til upplýsingar út af umræðu um Fiskistofuframlagið, þ.e. sundurliðun þessara 40 millj. kr. Það eru 14 milljónir í launakostnað, 7,5 milljónir í tölvu- og upplýsingakerfi, 8,5 milljónir í ráðgjafarkostnað, 5 milljónir í breytingar á húsnæði og svo eru 5 milljónir í annað ófyrirséð. Þetta er mjög sérstakt. Við fengum þetta svar í gær eða í morgun raunar.

En það er athyglisvert að í öðru svari sem óskað var eftir varðandi kostnaðargreiningu Landspítalans á svokölluðum PIP-brjóstapúðaaðgerðum kemur fram að 42 millj. kr. fóru í 102 aðgerðir á tímabilinu febrúar til september. Nú er óskað eftir því að gerðar verði 50 aðgerðir í viðbót og þá er kostnaðurinn í 60 millj. kr. Hvernig stendur á því? Á fyrri hluta ársins er hægt að afgreiða slíka aðgerð með kostnaði upp 420 þús. kr. en á síðari hluta ársins kostar aðgerðin 1,2 millj. kr.