141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

breytt framtíðarskipan refaveiða á Íslandi.

84. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir orð hennar og tek undir með henni að það er kannski eðlilegt að setja þetta í samhengi einmitt núna á miðju rjúpnaveiðitímabili, ef tímabil skyldi kalla því þetta eru örfáir dagar. Þá vitna ég aftur til þess sem ég kom inn á áðan að ef við gefum okkur að stofnstærðin sé 10–12 þús. dýr og miðað við greiningar á því hversu hátt hlutfall er af rjúpu í maga refsins, um 15%, má reikna með því að refurinn taki um 750 þús. fugla á ári. Það er nú þannig.

Varðandi tímarammann í þingsályktunartillögunni, hversu langan tíma stefnumörkunin ætti að taka, er gert ráð fyrir því að umhverfisráðherra verði falið að leita eftir samningum við Samband íslenskra sveitarfélaga eða landshlutasamtök sveitarfélaga og refaveiðarnar séu skipulagðar á grundvelli starfssvæðis hverra landshlutasamtaka fyrir sig, t.d. Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssambands Vestfirðinga, samtakanna á Norðurlandi vestra o.s.frv. Í dag sjá sveitarfélög um skipulagningu grenjavinnslu á sínum svæðum. Ég hallast að því að það sé skynsamlegri nálgun að hafa stærri svæði undir til skipulagningar.

Hvað fjármuni varðar má reikna með því að á næstu árum, miðað við hvað stofninn hefur stækkað mikið, munum við þurfa að veita meiri fjármuni til refaveiða en ella. Þegar við erum búin að ná stofnstærðinni niður í 4–5 þús. dýr, ef menn meta það svo að það sé eðlileg stofnstærð, má reikna með því að á ársgrunni, miðað við að mótframlag komi frá sveitarfélögunum, geti upphæðin legið einhvers staðar á bilinu 40–50 milljónir.

Þá bendi ég á í því samhengi, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, að sveitarfélög og refaveiðimenn greiða síðan virðisaukaskatt af þeirri upphæð sem kæmi á móti og rynni í ríkissjóð, bæði af (Forseti hringir.) ríkissjóðsframlaginu og framlagi viðkomandi sveitarfélaga.