141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

skýrsla um stöðu lögreglunnar.

[15:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að gera þessa skýrslu í raun opinbera. Ég get staðfest það að þegar ég leitaði eftir skýrslunni fékk ég hana senda um hæl. Ég held nefnilega að það sé mjög mikilvægt að við tökum opna umræðu um þetta mál, að við gerum okkur grein fyrir þeirri ábyrgð sem við berum hér á Alþingi.

Það er orðið mjög alvarlegt þegar segir í skýrslu innanríkisráðuneytis að viðbúnaðargeta vegna öryggis ríkisins sé óviðunandi varðandi fyrstu viðbrögð. Við erum að tala um algera grundvallarstarfsemi hvað varðar öryggi borgaranna. Við erum líka að tala um það fólk sem starfar í þessari grein, en við komum inn á það í sérstakri umræðu um málið í síðustu viku hversu alvarlegt ástand er að skapast í sambandi við starfsöryggi lögreglumanna. Það þarf jafnvel að flytja fjölskyldur á brott af heimilum til að tryggja öryggi þeirra. Þessi skýrsla kemur einmitt inn á það hversu öryggi lögreglumanna er orðið ábótavant og hve mikið hafi dregið úr þjálfun þeirra á námskeiðum, sem er alger grundvallarþáttur til að þeir geti sinnt störfum sínum. Ef heldur fram sem horfir (Forseti hringir.) fæst fólk einfaldlega ekki til starfa á þessum vettvangi og þá fyrst fer gamanið að kárna.

Ég ítreka (Forseti hringir.) spurningu mína um hvort innanríkisráðherra sé mér ekki sammála um það að hann flytji þinginu sérstaka skýrslu um þetta mál, sem verði (Forseti hringir.) byggð á þeim upplýsingum sem hér koma fram.