141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þá mikilvægu umræðu sem hefur farið fram í dag í skugga þess að á annað hundrað saklausir borgarar hafa fallið á undanförnum dögum í Palestínu. Við þekkjum það og ég styð það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur haldið fram í umræðunni: Að sjálfsögðu á Ísland að fordæma það framferði þegar fjölda einstaklinga, saklausum borgurum, er grandað með slíkum hætti. Við berum mikla ábyrgð gagnvart því að hafa lýst yfir stuðningi við Palestínumenn í þessum sal. Íslendingar hafa gert það. Ég vil líka minna á að Ísland hefur á undangengnum árum, m.a. undir forustu Steingríms Hermannssonar, sýnt málstað Palestínumanna mikinn skilning. Það hefur verið hlustað á rödd okkar Íslendinga þegar kemur að þeim málum. Blóðbaðinu verður að linna og Íslendingar eiga að beita sér í þeim efnum. Við eigum ekki að hafa neina minnimáttarkennd gagnvart því. Við eigum að fara fram á tafarlaust vopnahlé þegar kemur að þeim skelfilegu atburðum.

Mér finnst að við eigum líka að spyrja okkur hvað við getum gert á þessum tímamótum. Hvað getum við lagt af mörkum til þess að stöðva það ofbeldi og þau dráp sem við horfum upp á í dag?

Mig langar að ítreka spurninguna sem formaður Framsóknarflokksins varpaði fram áðan til hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig hyggst hann beita sér í dag og á næstu dögum gagnvart Norðurlandaþjóðunum svo að sú sterka rödd verði nógu öflug til þess að stilla til friðar í Palestínu? Það hlýtur að vera það brýnasta sem liggur fyrir í dag, að við beitum okkar rödd til að við ná fram friði á svæðinu vegna þess að það er þyngra en tárum taki að fylgjast með því sem gengur á þar um þessar mundir.