141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa ræðu. Þetta hefur komið fram undanfarna daga eftir að ljóst varð að fara ætti með málið í frumvarpsformi í gegnum þingið, akkúrat þessi gagnrýni fræðimanna sem hafa loksins tjáð sig um málið. Ég segi: Sem hafa loksins tjáð sig um málið — vegna þess að ég get upplýst það hér að í vinnslu þessa máls, eftir að stjórnlagaráð var búið að skila því til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefur engin efnisleg umræða farið fram. Fræðingar hafa verið kallaðir fyrir nefndina til að gefa álit sitt á hinu og þessu og hafa því miður sagt margt miður fallegt en á rök þeirra hefur ekkert verið hlustað.

Nú fá háskólamenn aukinn kraft þegar þeir sjá að keyra á málið í gegnum þingið og fara að tjá sig með þeim hætti sem komið hefur í ljós. Ég fagna því að háskólasamfélagið skuli vera komið á sama stað og við þingmenn sem höfum gagnrýnt allt ferlið allt frá því að Hæstiréttur kvað upp þann úrskurð að stjórnlagaþingskosningin væri ógild.

Mig langar að spyrja í framhaldi af þeirri gagnrýni sem hefur nú komið fram á þetta frumvarp: Hvað finnst hv. þm. Bjarna Benediktssyni um þann lagalega feril sem þetta mál fer í miðað við gæði lagasetningar? Stjórnarskrá Íslands liggur undir. Hún skal vera óháð pólitískum duttlungum og hún skal vera tímalaus. Hvernig er hægt að fara fram með málið og mæla fyrir því þegar fimm mánuðir eru í kosningar og allur sá vandaði undirbúningur sem þarf til að gera stjórnarskrá, þ.e. ef á að gera breytingar, er hunsaður?